Jens Kristinn Gíslason hjá SA er krullumaður ársins 2010 en hann hlaut afgerandi kosningu. Jens hefur verið í fremstu röð krullufólks um nokkurra ára skeið. Eftir að hafa stýrt eigin liði í nokkur ár gekk hann til liðs við Mammúta haustið 2008 og gegnir þar mikilvægu hlutverki.
Með Mammútum vann Jens þrjú mót í upphafi árs, Janúarmótið, deildarkeppni Íslandsmótsins og svo úrslitakeppni Íslandsmótsins. Á alþjóðlega mótinu Ice Cup, sem Krulludeild SA heldur á hverju vori, gekk Jens til liðs við þrjá rússneska keppendur og vann til bronsverðlauna á mótinu. Jens gegndi lykilhlutverki í landsliði Íslands í krullu sem vann fjóra leiki af sex í C-keppni Evrópumótsins í september og endaði þar í þriðja sæti.
Þess má til gamans geta að bróðir Jens, Jón Benedikt Gíslason, var valinn íshokkíleikmaður ársins.