Jafnréttisráðstefnur SFR haldnar víða um land

SFR - stéttarfélag stendur fyrir ráðstefnuröð um jafnrétti á komandi vikum og verður ráðstefna  haldin í öllum landsfjórðungum. Byrjað verður í Rósenborg á Akureyri þann 8. mars nk. kl. 13-16, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Síðan verður haldið til Egilsstaða þann 14. apríl, til Ísafjarðar 20. apríl og endað í Reykjavík þann 28. apríl. SFR hefur lagt mikla áherslu á launajafnrétti  kynjanna og jafnréttismál í starfi sínu.  

Á síðustu misserum hafa ýmsir haldið því fram að jafnréttismálin séu síður á dagskrá vegna þeirra erfiðleika í efnahagsmálum sem íslenska þjóðin er að ganga í gegnum. Það er skoðun SFR að ef einhverju sinni hafi verið þörf á að huga sérstaklega að jafnréttismálum, þá sé það nú. Jafnrétti má ekki verða afgangsstærð í uppbyggingu og endurnýjun samfélagsins. Þvert á móti. Jafnrétti kynjanna er mikilvægara en nokkru sinni. Endurreisa þarf íslenskt samfélag þar sem velferð þegnanna, réttsýni og jafnrétti verða þau gildi sem skipað verður í öndvegi. Í okkar huga er jöfn staða kynjanna ein af forsendum farsældar, segir í fréttatilkynningu.

Markmiðið með ráðstefnuröðinni er að vekja upp umræður og spurningar um jafna stöðu kynjanna. Við viljum gera tilraun til að varpa nýju eða öðru ljósi á umræðuna um jafnréttismál. Fyrirkomulag ráðstefnanna verður með nýstárlegum hætti. Á hverri ráðstefnu eru tveir fyrirlesarar sem tala um ólík efni. SFR gengur út frá góðri og virkri þátttöku ráðstefnugesta og verða niðurstöður ráðstefnunnar notaðar sem efniviður inn í jafnréttisáherslur félagsins til næstu missera. Munum að jöfn staða kynjanna er forsenda farsældar í íslensku samfélagi á næstu misserum.   

Ráðstefnan er opin öllum og við hvetjum félagsmenn SFR, sem og alla aðra áhugasama, til að koma og taka virkan þátt í umræðum um jafna stöðu kynjanna. Jafnrétti verður ekki náð án nýrra viðhorfa og þátttöku allra.

Allar nánari upplýsingar og skráning á www.sfr.is

Dagskráin:

AKUREYRI

8. mars, kl. 13:00-16:00 -  Rósenborg, Skólastíg 2

Kreppan og kynjajafnrétti

Tryggvi Hallgrímsson, sérfræðingur á Jafnréttisstofu.

Kyn og loftslagsbreytingar - björgum jörðinni saman
Kristín Ástgeirsdóttir,
framkvæmdastýra Jafnréttisstofu.

EGILSSTAÐIR

14. apríl, kl. 13:00-16:00 - Hótel Hérað, Miðvangi 5-7

Kynjamyndir á vinnumarkaði
Þórdís Þórðardóttir, lektor í uppeldis- og menntunarfræðum við Menntavísindasvið Háskóla íslands.

Kvenrembur og karlrembur -  munurinn á lagalegu og menningarlegu jafnrétti !
Stefanía Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Austfjarða.

ÍSAFJÖRÐUR

 20. apríl, kl. 13:00-16:00 - Edinborgarhúsið, Aðalstræti 7

Skreppur og Pollýanna - Samræming fjölskyldulífs og atvinnu, kynhlutverk og eðli starfa 

Dr. Gyða Margrét Pétursdóttir, aðjúnkt í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Kerfið og kynin: Líðan og virkni á unglingastigi
Kristján Ketill Stefánsson, stundakennari og doktorsnemi við Háskóla Íslands.

REYKJAVÍK

28. apríl, kl. 13:00-16:00 - BSRB húsið, Grettisgötu 89

Kastljós á kyn: Fjármagn til karla og kvenna í kynjaðri hagstjórn
Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og  situr í verkefnisstjórn um kynjaða hagstjórn.

Ofbeldi í skjóli einkalífs
Fríða Rós Valdimarsdóttir, mannfræðingur og höfundur skýrslunnar „Líka á Íslandi, um umfang og eðli mansals",  og Kristbjörg Kristjánsdóttir, kynjafræðingur og fyrrum starfskona Stígamóta.

Nýjast