Í kvöld fer fram lokaumferð Íslandsmótsins í krullu 2011 í Skautahöll Akureyrar. Sjö lið taka þátt í mótinu, öll úr röðum Krulludeildar Skautafélags Akureyrar. Leikin er tvöföld umferð, allir við alla. Fyrir lokaumferðina eiga tvö lið möguleika á að vinna Íslandsmeistaratitilinn.
Garpar eru efstir með tíu sigra í ellefu leikjum en Íslandsmeistarar síðustu þriggja ára, Mammútar, eru með níu sigra í ellefu leikjum. Nú þegar er ljóst að Fálkar hljóta bronsið, liðið hefur lokið leik með sex sigra, en næstu lið þar á eftir eru aðeins með fjóra sigra og geta því ekki náð Fálkum.
Í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn nægir Görpum einfaldlega að vinna sinn leik í lokaumferðinni í kvöld eða að Mammútar tapi sínum leik. Ef Garpar tapa sínum leik og Mammútar sigra enda liðin jöfn og þurfa því að leika aukaleik á næstunni um titilinn.
Þetta er tíunda Íslandsmótið í krullu, en fyrst var keppt um titilinn 2002. Keppt er um svokallaðan Wallace-bikar, sem hjón af íslenskum ættum í Seattle í Bandaríkjunum gáfu til Krulludeildarinnar við vígslu Skautahallarinnar á Akureyri