13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Ísland undir vopnum
Fyrir rúmu ári hóf ég störf sem lögmaður aftur eftir um 8 ára hlé. Áður hafði ég starfað við lögmennsku í Reykjavík en á að auki að baki 20 ára starfsferil í lögreglunni á Akureyri. Mér er illa brugðið vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á samfélaginu á undanförnum árum. Þær breytingar minntu harkalega á sig þegar barn gerði vopnaða árás á önnur börn á Menningarnótt í Reykjavík svo að eitt þeirra berst fyrir nú fyrir lífi sínu. Persónulegt og samfélagslegt tjón af slíkum atburði verður aldrei bætt.
Erum við ef til vill að fljóta sofandi að feigðarósi hvað varðar samfélagið okkar? Höfum við varið fjármunum og athygli í ráðstafanir sem skipta litlu máli og skila engum árangri í stað þess að gæta að og verja hagsmuni og hugarfar okkar og barnanna okkar? Ég ætla að svara báðum þessum spurningum með afdráttarlausu "Já".
En hver er farsælasta leiðin við þessar aðstæður? Er það leiðin til baka? Leið sem hægt er að fara með samstilltu átaki þar sem börnin hafa sína rödd, hver sem þau eru og hver sem staða þeirra er? Viljum við aftur búa í samfélagi vopnleysis og samtals? Eða viljum við mæta vopnunum með stærri vopnum og valdbeitingunni með meiri valdbeitingu? Viljum við mæta mistökum barnanna með harðari og óvægnari refsingum? Verður samfélag sem þannig er upp byggt farsælla fyrir okkur? Ég veit hvora leiðina ég mundi velja.
Orsökin er óöryggi.
Óöryggi leiðir til þess að menn vopnast. Öruggur maður vopnast ekki. Hvar sem menn standa í stjórnmálum eru menn sammála um að ríkisvaldinu beri að tryggja innra öryggi ríkisins og þegna þess. Það verður best gert með vel mannaðri löggæslu þar sem sanngirni, hófstilling og virðing situr í fyrirrúmi hvort sem á í hlut forstjóri milljarðafyrirtækis eða ungur síbrotamaður sem misst hefur tök á lífi sínu. Þó að lögreglumenn þurfi að vera vel að sér í valdbeitingu og hafa aðgang að valdbeitingartækjum sem hæfa hverju verkefni, þá þurfa þeir enn frekar að vera í stöðugri þjálfun í einstaklingsbundnum atriðum hvað varðar mannlega breyskleika, þar á meðal sína eigin, siðferðileg álitamál, lagalegt atriði, meðalhóf og hófstillingu. Samtal, viðmót, virðing og skynsemi eru sterkustu "vopn" lögreglumannsins og valdbeiting er vísbending um að það gæti verið að færni á þeim sviðum mætti vera meiri. Þó þarf að hafa í huga að við tilteknar aðstæður, þegar raunverulega hættulegir glæpamenn eiga í hlut þá er skjót, fumlaus og sterk valdbeiting eina leiðin.
Þjóðarsátt um afvopnun.
Ég tel að við þurfum að gera þjóðarsáttmála um að afvopnast. Sáttmála um að samtal sé leiðin fram á við og að átök, ágreiningur, ofbeldi og ofsi leiði okkur til glötunar. Virðing, háttvísi og hófstilling eiga að vera leiðarljós okkar í öllum samskiptum, hvort sem við erum í valdastöðu eða ekki í þeim samskiptum og hver sem staða okkar er í samfélaginu almennt. Við erum lítil þjóð og samstillt þegar á reynir. Sameiginlega getum við gert það sem við ætlum okkur að gera.