Dómstóll ÍSÍ dæmdi í gær Skautafélagi Akureyrar í hag en Skautafélag Reykjavíkur hafði kært þátttöku Josh Gribbens með liði SA í úrslitaleikjum Íslandsmóts karla í íshokkí gegn SR. SA varð Íslandsmeistari í síðasta mánuði með því að leggja SR, 3:2, í úrslitaeinvíginu og heldur því titlinum samkvæmt þessu. SR hefur þó vikufrest til að áfrýja dómnum og getur skotið honum til áfrýjunardómstóls ÍSÍ. Þetta kemur fram á mbl.is
SR telur að Gribben hafi ekki haft leikheimild í úrslitakeppninni, þar sem erlendir leikmenn þurfi að spila a.m.k. einn leik í hverri umferð frá 1. nóvember til að vera löglegir í úrslitakeppninni. Dómstóllinn taldi hins vegar að ljóst væri að vegna meiðsla hefði Gribben ekki getað leikið í öllum umferðum, auk þess sem hann hefði verið búsettur á Íslandi í þrjú ár og starfaði hér á landi sem þjálfari.