Íris Guðmundsdóttir frá SKA vann þrefalt á Icelandair Cup sem haldið var í Hlíðarfjalli um helgina. Keppt var í svigi bæði á laugardag og sunnudag en ekki voru aðstæður til keppni í stórsvigi eins og til stóð.
Íris sigraði báða dagana í sviginu í kvennaflokki. Í fyrri keppninni hafnaði Helga María Vilhjálmsdóttir Reykjavík í öðru sæti og Freydís Halla Einarsdóttir Reykjavík varð þriðja. Á seinni deginum varð Inga Rakel Ísaksdóttir SKA í öðru sæti á eftir Írisi en í þriðja sæti hafnaði Thelma Rut Jóhannesdóttir Ísafirði.
Í karlaflokki sigraði Björgvin Björgvinsson Dalvík á fyrri deginum, annar varð Sigurgeir Halldórsson SKA og þriðji Brynjar Jökull Guðmundsson Reykjavík. Á seinni deginum var það Jakob Helgi Bjarnason Dalvík sem bar sigur úr býtum, Sigurgeir Halldórsson SKA varð í öðru sæti og Einar Kristinn Kristgeirsson Reykjavík hafnaði í þriðja sæti.
Í samanlögðu sigraði Íris Guðmundsdóttir í kvennaflokki en Sigurgeir Halldórsson í karlaflokki.