Íris og Björgvin skíðafólk ársins

Norðlenska landsliðskonan Íris Guðmundsdóttir hefur verið valin skíðakona ársins og Dalvíkingurinn Björgvin Björgvinsson skíðamaður ársins af Skíðasambandi Íslands.

Þrátt fyrir ungan aldur er Írís fremsta skíðakona landsins. Hún er aðeins tvítug að aldri og hefur verið búsett í Noregi í fimm ár til að geta einbeitt sér að skíðaíþróttinni við bestu mögulegu aðstæður. Írísi tókst að vinna sér keppnisrétt á vetrar Ólympíuleikunum í Vancouver í Kanada í svigi og risasvigi. Einnig keppti hún á heimsmeistarmóti unglinga í svigi, stórsvigi og risasvigi í Frakklandi. Í risasvigi hafnaði hún í 54. sæti af 80 keppendum en í svigi og stórsvigi féll hún úr keppni. Írís bætti stöðu sína á heimslista Alþjóða skíðasambandsins á árinu og er hún númer 472 í svigi, 571 í stórsvigi og 313 í risasvigi. Einnig er hún núverandi Íslandsmeistari í stórsvigi og alpatvíkeppni.   

Björgvin Björgvinsson náði sínum besta árangri í upphafi ársins þegar hann náði 24. sæti á heimsbikarmóti í svigi í Zagreb í Króatíu. Hápunktur tímabilsins var þátttaka á vetrar Ólympíuleikunum í Vancouver Kanada. Björgvin náði 43. sæti í stórsvigi af 103 keppendum en í svigi féll hann úr leik í fyrri umferð. Á árinu komst Björgvin hæst í 58. sæti í svigi á heimslista Alþjóða skíðasambandsins sem er hans besti árangur á ferlinum. Björgvin er núverandi Íslandsmeistari í svigi, stórsvigi og alpatvíkeppni.


Nýjast