Indiana Jones líftækninnar sem leitar að leyndum fjársjóðum í umhverfinu
Vísindamanneskjan í september er Eva María Ingvadóttir, aðjúnkt við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri.
Lífvísindin hafa alltaf heillað
Þegar Eva María var krakki var það líklega löngu dottið út að kalla fólk brekkusnigla sem ólst upp á brekkunni á Akureyri en þar sleit hún barnsskónum og býr enn í dag. Eva María útskrifaðist úr Menntaskólanum á Akureyri og hélt svo í Háskólann á Akureyri þar sem hún kláraði grunn- og framhaldsgráðu í líftækni við Auðlindadeild. Eva María fann sig vel í líftækninni og í framhaldi af náminu varð hún stundakennari við Auðlindadeildina í langan tíma þar til hún var ráðin í stöðu aðjúnkts fyrir um ári.
„Ég hef alltaf haft áhuga á lífvísindum og umhverfinu. Nýverið hef ég þó áttað mig á að félagsvísindi og eigindlegar aðferðir eru eitthvað sem mig langar að kynna mér betur“ segir Eva María um áhugasvið sitt og líklegt er að þessi ungi aðjúnkt muni halda áfram að læra alla sína ævi. Þessi áhugi endurspeglast í samfélagslegri þátttöku og miðlun, hún situr í stjórn Líffræðifélags Íslands og deilir vísindum á samfélagsmiðla. Eva María stofnaði meðal annars hóp á facebook sem heitir Vísindi í íslenskum fjölmiðlum! og heldur úti vísinda instagram sem hægt er að finna undir nafninu @whataboutscience. Hvetjum öll til að tékka á því!
Leitin að lífefnum og hvað þau geta gert
„Líftæknileg örverufræði er mitt áherslusvið og þá dreifkjörnungar og efnaskipti þeirra. Það er svo merkilegt að sjá hvað þeir eru magnaðir og hvað þeir geta. Í gegnum árin hef ég ásamt öðrum meðal annars skoðað hæfni ýmissa dreifkjörnunga til að framleiða nytsamleg efni á borð við lífetanól og lífplast, eða umbreyta virðislitlum efnum í dýrmætari efnasambönd sem nýta má sem eins konar „byggingareiningar“ í iðnaði,“ segir Eva aðspurð út í hennar rannsóknir og það má sjá á svipnum að áhuginn er svo sannarlega einlægur.
Hún bætir við: „Til að útskýra aðeins betur hvernig þetta er gert, þá er leitað að lífefnum í umhverfinu, til dæmis í heitum hverum, þar sem dreifkjörnungar eru einangraðir úr sýnum og þeir svo rannsakaðir til að sjá hvað þeir geta gert“.
Aha mómentin skemmtilegust
Eva sér aðallega um verklega kennslu og telur sig afar heppna hvað það varðar. „Ég hef umsjón með kennslu á rannsóknarstofu í ýmsum áföngum, meðal annars örverufræði, lífefnafræði og líftæknilegri örverufræði. Þá er leiðbeinandahlutverkið varðandi þriðja árs nema líka afar gefandi og allra skemmtilegast að sjá nemendur ná tökum á nýjum aðferðum. Svona þið vitið, þessi aha móment“ segir Eva aðspurð um kennsluna og bætir við: „Þá er einnig gaman að ræða námsefnið út frá því sem er að gerast í samfélaginu hverju sinni og tækifærin liggja í þessari tengingu að mínu mati. Að tengja saman raunverulegar samfélagslegar áskoranir og námsefnið. Dýrmætasta kennsluaðferðin finnst mér einmitt vera umræður, meðfram verklegri kennslu en það er hins vegar hægara sagt en gert að koma þeim af stað. Það er list að bera kennsl á góðar kveikjur og haga kennslunni þannig að nemendur bæði treysti sér til og hafi áhuga á að leggja orð í belg. Svo þarf að hafa í huga að það sem mér finnst góð kveikja þarf ekki endilega að þýða að nemendum finnist hún góð eða áhugaverð.“
Eva María telur brýnast að rannsaka hvernig líftæknileg örverufræði getur stutt við hringrásarkerfið því það sé alveg ljóst að hún getur það. Eva útskýrir þetta betur: „Úrgangsmál eru mér efst í huga. Ég fagna því að hér á svæðinu eigi að rísa bæði metan- og líforkuver. Við sem þjóð erum að standa okkur ágætlega í úrgangsstjórnun, en getum alltaf gert betur. Við erum enn að „tapa“ mikilli orku á haugana og út í sjó í formi lífræns lífmassa. Þessa orku má „virkja“ eða endurheimta, fer eftir því hvernig litið er á málið, með örverum – hvort sem um er að ræða dreif- eða heilkjörnunga. Að nota efni A til að búa til efni B sem síðan má nota til að framleiða efni C og svo framvegis. Að búa til „eitthvað“ úr nánast „engu“ með hjálp lifandi frumna eða frumuhluta er framtíðin.“
Heilræði: Heimskar spurningar eru ekki til – bara heimsk svör.