Íbúum í Eyjafirði fjölgaði aðeins á Akureyri og í Dalvíkurbyggð

Íbúum í Eyjafirði hefur fjölgað um eitt hundrað á milli ára, samkvæmt tölum Hagstofunnar um mannfjölda þann 1. desember sl. Af sjö sveitarfélögum í Eyjafirði, hefur íbúum aðeins fjölgað á Akureyri og í Dalvíkurbyggð en fækkað í hinum fimm, þó aðeins um einn í Eyjafjarðarsveit. Í Svalbarðarsstrandarhreppi er íbúatalan komin niður fyrir 400 manns á ný.  

Þann 1. desember sl. voru íbúafjöldinn á Akureyri 17.728 og fjölgaði um 165 íbúa á milli ára. Í Dalvíkurbyggð voru íbúar 1958 og fjölgaði um 7 frá 1. desember í fyrra. Sem fyrr segir fækkaði um einn íbúa í Eyjafjarðarsveit á milli ára en þann 1. desember sl. voru íbúar 1.029. Hlutfallsleg fækkun varð mest í Svalbarðsstrandarhreppi en þar fækkaði íbúum um 16, úr 414 í 398 á milli ára. Hörgárbyggð og Arnarneshreppur sameinuðust í eitt sveitarfélag á árinu, Hörgársveit, og fækkaði í sameiginlegu sveitarfélagi um 7 íbúa og eru þeir nú 599.  Þann 1. desember í fyrra voru íbúar í Hörgarbyggð 429 og í Arnarneshreppi 177 eða samtals 606. Í Grýtubakkahreppi fækkaði um þrjá íbúa á milli ára og þar eru íbúar nú 334. Í Fjallabyggð fækkaði hins vegar um 45 íbúa á milli ára og þann 1. desember sl. voru íbúar þar alls 2037.

Á Norðurlandi eystra fækkaði íbúum um rúmlega 500 manns. Þann 1. desember voru íbúar svæðisins 28.909 en á sama tíma í ár eru þeir 28.407.

Nýjast