Í upphafi skyldi endinn skoða

Ragnar Sverrisson.
Ragnar Sverrisson.

Jón vinur minn Hjaltason er hress að vanda í síðasta Vikudegi þegar hann segist sannfærður um að Akureyringar vilji ekki "verja stórfé í að þoka Glerárgötu ögn til austurs," eins og gert er ráð fyrir í núgildandi skipulagi miðbæjarins. Hann heldur einnig að mikill meirihluti bæjarbúa þyki sú hugmynd hrein firra enda þótt engin athugasemd hafi komið við hana frá þessum meinta meirihluta við frágang skipulagsins á sínum tíma. Hann nefnir líka saltausturinn á götur bæjarins sem sannarlega er mjög umdeildur gjörningur og fullyrðir síðan að fáir bæjarbúar hafi áhuga á hugmyndum um háhýsabyggð norðan Gránufélagshúsanna.

Í því sambandi varpar hann fram þeirri spurningu hvers vegna við séum með skipulag og skipulagsyfirvöld ef verktakar geti síðan byggt eftir eigin höfði "og það þvert á ríkjandi aðalskipulag?"   Nú veit ég ekki til þess að verktakar geti vaðið fram og byggt eins og þeim sýnist hér á Akureyri frekar en annars staðar.  Það er auðvitað ekki hægt og þess vegna er spurning félaga Jóns ekki gild. Hún er bókstaflega kjánaleg enda eru hugmyndirnar um háhýsin norðan Gránufélagshúsanna enn í vinnslu í bæjarkerfinu eins og flestir vita og óvíst um niðurstöðu.

Döpur stjórnsýsla

Þessar vangaveltur Jóns leiða hugann að því hvers vegna ekki er farið eftir þeim ákvörðunum sem sannarlega hafa þegar verið teknar af skipulagsyfirvöldum og í bæjarstjórn eins og til dæmis varðandi miðbæinn. Ekki hafa verktakar spillt fyrir þar  en því miður hafa þessi sömu stjórnvöld bæjarins kynokað sér við að koma löglega teknum ákvörðunum um skipan miðbæjarins í framkvæmd m.a. vegna ýmiskonar þrýstings einstaklinga, hagsmunaaðila og félaga sem vilja af ýmsum ástæðum koma í veg fyrir að samþykkt skipulag verði að veruleika. Þá er einlægt vísað til þess að ekki sé full samstaða um verkefnið og því rétt að hlaupa í skjól, hafast ekki að og fresta framkvæmdum. Við Jón getum áreiðanlega verið sammála um að slík vinnubrögð séu ekki til marks um góða stjórnsýsla.

Skynsamleg niðurstaða 

Ég nefni þetta sérstaklega vegna ummæla Jóns um færslu Glerárgötunnar fyrir ofan Hof, sem hann telur hina mestu firru, enda þótt um það hafi verið fullkomin sátt þegar deiliskipulagið var til opinberrar umsagnar og síðan samþykkt samhljóða í bæjarstjórn árið 2014. Ég hef áður rifjað upp í þessu ágæta blaði að megin ástæður tilfræslu götunnar eru tvær: Í fyrsta lagi að hægja á umferð í gegnum þennan hluta miðbæjarins svo hann verði vistvænni og meira aðlaðandi fyrir bæjarbúa og gesti.  Í annan stað til að auka rými um 5000 fermetra fyrir þær byggingar sem skipulagið gerir ráð fyrir að rísi vestan götunnar milli Torfunefs og Strandgötu sem myndar síðan samfellda heild við hlið gamla miðbæjarins og tryggir greiðar gönguleiðir niður að Polli. Þessi litla en skynsama tilfærsla götunnar þarna  var því ekki einhver firra eða óskilgreind hugdetta sem kom upp úr engu. Þvert á móti var hún mjög vel ígrunduð og fest formlega í gildandi deiliskipulag miðbæjarins.   Engir vafasamir verktakar komu þar við sögu og þess vegna ætti öllu að vera óhætt!

Fjárhagslega hagkvæmt

Vert er að vekja athygli á því að hér er verið að fjalla um dýrusta lóðir bæjarins enda verða þær eflaust mjög eftirsóttar ef bæjaryfirvöld koma sér að því að auglýsa þær til uppbyggingar samkvæmt skipulaginu og gera það sem að þeim snýr svo að allt gangi upp eins og áður hefur oft verið rakið á þessum vettvangi. Kvartað er undan því að tilfærslan sé of dýr fyrir bæjarsjóð og því ráðlegt að endurnýja götuna nákvæmlega þar sem hún er núna.  Það myndi  auðvitað leiða til þess að allt skipulagið raskast og ekkert verður úr uppbyggingu á  þessum stað, öllum til mikils tjóns. Fyrir skömmu vakti ég athygli á því að fyrirliggjandi kostnaðaráætlun við að færa þennan hluta götunnar austar væru röskar 390 milljónir króna. Á móti kemur að stækkun byggingarsvæðisins ætti að gefa strax allt að 100 milljónum krónum meira í gatnagerðargjöld. Auk þess munu fasteignagjöld af þessu viðbótarsvæði gefa 15 milljónum króna meira af sér á ári í bæjarsjóð. Því myndi þessi tilfærsla götunnar skila sér að fullu eftir nokkur ár og eftir það vera stöðug tekjulind bæjarins. Því til viðbótar kæmu svo tekjur af öflugri atvinnustarfsemi á svæðinu sem annars yrðu ekki í boði. Þessi tilfærsla götunnar er því engin firra og því síður peningaaustur heldur grunnurinn að traustri tekjulind til langs tíma fyrir bæjarsjóð.

Afrakstur lýðræðislegrar umræðu

Félaga Jóni verður tíðrætt um nauðsyn þess að þróa betur og festa í sessi íbúalýðræði. Undir það má auðvitað taka en í því sambandi minni ég á að aldrei hefur íbúalýðræðið verið virkjað betur en hér á Akureyri áður en vinna hófst við að koma nýju skipulagi á miðbæinn.  Mjög fjölmennt íbúaþing sem stóð í heilan dag mótaði meginlínur sem það óskaði eftir að tekið yrði tillit til við gerð miðbæjarskipulagsins. Sem betur fer voru þessar meginlínur íbúaþingsins alltaf hafðar til hliðsjónar á því tíu ára ferli sem tók að ganga frá núgildandi miðbæjarskipulagi. Alltaf. Auk þess komu íbúar mikið að málum á opnum fundum á lokametrum við gerð skipulagsins. 

Nú vilja einhverjir fara að grauta í grundvallarþáttum þess og bjóða þar með þeirri hættu heim að vönduðu skipulagi verði splundrað og þar með að meginóskir íbúaþingsins verði að engu virtar. Ekki ætla ég Jóni vini mínum að hann vilji ganga á móti vilja bæjarbúa sem margir sáu fyrir sér vistvænan og aðlaðandi miðbæ í nánustu framtíð.  Miðbæ þar sem við Jón getum saman rölt í ellinni í fylgd okkar betri helminga með eða án göngugrinda. Það yrði heillandi sjón í fögru og líflegu umhverfi!

-Ragnar Sverrisson, kaupmaður

 

 


Athugasemdir

Nýjast