Páskalambið og páskaungar og páskaegg verða mál málanna næstu daga, svo ekki sé nú minnst á páskamyndirnar í sjónvarpinu, þar sem m.a. er á dagskránni hin nafntogaða ræma Hrútar, sem að mestu var skotin í Bárðardal uppi.
Og kvikmyndin Hrútar leiðir hugann að því að nöfn og titlar skipta máli. Sérstaklega, að því er virðist, þegar um er að ræða íslenskar kvikmyndir sem ótrúlega margar draga heiti sín af margvíslegum dýrartegundum. Síðustu misserin hafa þrjár myndir verið að vinna til verðlauna víða um heim, sem sé áðurnefndir Hrútar og svo myndirnar Þrestir og Hross í oss. Nú, skemmst er svo að minnast eldri verðlaunamynda á borð við Hrafninn flýgur og Benjamín dúfa.
Og þetta á ekki bara við um þekktustu íslensku kvikmyndirnar og þær sem hafa unnið til verðlauna. Einnig má nefna myndirnar: Hvítir máfar. Foxtrot (fox þýðir jú refur). Í skugga hrafnsins. Eins og skepnan deyr. Perlur og svín. Falskur fugl. Reykjavík Whale Watching Massacre. Fálkar. Didda og dauði kötturinn. Mávahlátur. Gæsapartí.
Við þetta má svo bæta myndum á borð: Hadda Padda (svolítið langsótt reyndar!) enda dönsk þó hún byggi á sögu Kambans, og náttúrlega Litla lirfan ljóta. Og svo auðvitað smekksatriði hvort menn vilja fella myndina Englar alheimsins undir þessa skilgreiningu, þar sem tegundagreiningu á englum er í ýmsu áfátt. En þeir ku að sögn vera fiðraðir, öfugt við flest fólk, og standa þar með væntanlega nær dýraríki en manna.
Ætli í kvikmyndasögu nokkurrar annarrar þjóðar sé að finna hlutfallslega svo margar „dýramyndir?“ Ja, eða alla vega kvikmyndir sem draga nöfn af málleysingum af margvíslegu tagi. Og sjálfsagt eiga þessar íslensku dýrakvikmyndir líka annað en nöfnin ein sameiginlegt, sem sé að þær hafa örugglega verið ódýrari í framleiðslu en langflestar útlenskar bíómyndir.
Þetta þarf að sjálfsögðu að rýna í, rannsaka ofan í kjölinn og fá rökstudda niðurstöðu í málið og skýringu á því hvað veldur þessum sérkennilega bíógrafíska animalisma í íslenskri kvikmyndagerð.
Það væntanlega styttist í að gerð verði mynd eftir sögu Gunnars Gunnarssonar, Svartfugl, enn einni dýramyndinni í íslenska kvikmyndasafnið. JS