Hvergi fleiri íbúar á bak við hvern lögreglumann

Í umdæmi lögreglunnar á Akureyri einn lögreglumaður á hverja 778 íbúa.
Í umdæmi lögreglunnar á Akureyri einn lögreglumaður á hverja 778 íbúa.

Lögreglan á Akureyri hefur orðið fyrir miklum niðurskurði frá efnahagshruni og segir Daníel Guðjónsson yfirlögregluþjónn, að við því hafi þurft að bregðast með margvíslegum hætti. Umdæmi lögreglunnar á Akureyri nær um Eyjafjörð en að auki hafa lögreglumenn í umdæminu fengið aukin verkefni víðar á Norðurlandi. “Lögreglan hér þjónar nú rúmum 24 þúsund íbúum og Rannsóknardeild rúmum 36 þúsund íbúum. Hvergi á landinu eru nú fleiri íbúar á bak við hvern lögreglumann,” segir Daníel.

Hér er einn lögreglumaður á hverja 778 íbúa, í Reykjavík einn lögreglumaður á hverja 657 íbúa, á Akranesi einn á hverja 662 íbúa, á Seyðisfirði einn á hverja 620 íbúa og á Sauðárkróki einn á hverja 514 íbúa, sem dæmi. Daníel segir að fækkað hafi um fjóra í lögregluliðinu frá árinu 2008, þar sem ekki hafi verið ráðið í stöður manna sem hættu. Tveir hættu í Fjallabyggð og tveir á Akureyri. “Á móti hafa Héðinsfjarðargöng sparað fjármuni þar sem hægt var með tilkomu þeirra að leggja niður varðstofuna á Ólafsfirði og færa starfsstöð lögreglumannanna þar í nýlega og góða lögreglustöð á Siglufirði. Akstur lögreglubíla hefur verið minnkaður um þriðjung og þá eru að jafnaði færri á vakt en áður þar sem ekki eru kallaðir inn aukamenn vegna veikinda, orlofs og annarra fjarvista. Því eru oft einungis þrír lögreglumenn að störfum í stað fimm sem telst fullmönnuð vakt samkvæmt vaktskrá.”

Þá segir Daníel að sumarafleysingamönnum hafi verið fækkað. “Það hefur skert verulega frumkvæðisvinnu lögreglunnar eins og umferðareftirlit einmitt þegar mest þörf er á því en stærstur hluti umferðarlagabrota er að jafnaði yfir sumarmánuðina. Á sama tíma hefur lögreglan fengið aukin verkefni eins og rannsóknir allra stærstu mála á Norðurlandi eins og alvarleg umferðaróhöpp, bruna, öll kynferðisafbrot, stærstu fíkniefnamálin og fleira. Engir fjármunir fylgdu hins vegar þessum skyldum og hefur verið reynt að mæta auknu álagi í Rannsóknardeild með því að láta almenna lögreglumenn ljúka minniháttar málum. Það hefur líka reynst snúið þar sem þar eru að jafnaði færri á vakt en áður og bitnar því líka á almennu eftirliti,” segir Daníel.

Nýjast