Hver mínúta skiptir máli við flutning sjúklinga í lífshættu
Njáll Trausti Friðbertsson flugumferðarstjóri og varabæjarfulltrúi benti í Vikudegi nýlega á að mikilvægt væri að halda málefnum Reykjavíkurflugvallar á lofti, en í aðalskipulagi Reykjavíkur er aðeins gert ráð fyrir einni flugbraut í Vatnsmýri eftir árið 2016 í stað þriggja nú. Í undirbúningi er gerð skýrslu um afleiðingar þess fyrir Akureyri og þá sem nýta Akureyrarflugvöll að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður af í núverandi mynd.
Leifur tekur undir með Njáli Trausta og segir mikilvægt að halda gangandi umræðunni um nauðsyn þess fyrir íbúa landsbyggðarinnar að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýri. Um 430 sjúklingar eru fluttir með sjúkraflugi árlega frá landsbyggðinni til Reykjavíkur og um helmingur þeirra hefur verið í lífshættu. Leifur bendir á að ef Reykjavíkurflugvöllur verður lagður af og lent í Keflavík bætist klukkustund við flutning sjúklinga á sjúkrahús, þar sé um dýrmætan tíma að ræða sem skipt geti sköpum. Eitt af nýlegri dæmum þar sem litlu mátti muna er sjúkaflug með Helgu Sigríði Sigurðardóttur, 12 ára stúlku á Akureyri undir lok síðasta árs. Þar skipti hver mínúta máli.
Leifur nefnir að fyrirhugað sé að byggja upp hátækisjúkrahús fyrir 80 milljarða í Reykjavík, sem væntanlega yrði opnað með lúðrablæstri á svipuðum tíma og ætlunin sé að loka Reykjavíkurflugvelli. „Fólk hlýtur að sjá að slíkt sjúkrahús er ekki fyrir fólkið af landsbyggðinni og við hljótum því að gera þá kröfu að við tökum ekki þátt í kostnaði við að reisa það," segir Leifur.