Hvalaskoðunarvertíðin hófst 1. apríl hjá Norðursiglingu á Húsavík og hefur fyrirtækið aldrei fyrr hafið vertíðina svona snemma. Í þessari fyrstu ferð ársins voru 19 farþegar, ferðamenn frá Austurríki, Spáni og Bretlandi auk gesta frá Háskólasetrinu á Húsavík. Engin stórhveli heilsuðu upp á farþegana en hins vegar skemmti fjöldinn allur af hnísum þeim með ærslafullum leik undir Kinnafjöllum.
Eitthvað hafa hvalirnir samt verið farnir að sakna athyglinnar því að tveimur dögum fyrir fyrstu ferð gerði hnúfubakur sig heimankominn í Húsavíkurhöfn, íbúum og ferðamönnum til mikillar skemmtunar, segir í frétt frá iðnaðarráðuneytinu.