11.desember - 18.desember - Tbl 50
Húsavík - Bæta umferðaröryggi barna við Borgarhólsskóla
Unnið hefur verið að því að undanförnu að bæta öryggi barna við skólalóð Borgarhólsskóla á Húsavík og hefur bílaumferð almennra ökutækja nú þegar verið stöðvuð inn á skólalóðina.
Hönnun Skólalóðar Borgarhólsskóla hefur verið í vinnslu um nokkurt skeið. Framkvæmdir í samræmi við uppfærða hönnun á skólalóð er umfangsmikil og verður tekin í áföngum. Í 1 áfanga verður hugsað til þess að bæta öryggismál sem snúa að umferð vélknúinna tækja við lóð skólans og betri afmörkun skilgreindra leiksvæða á lóðinni. Hönnun lóðarinnar er langt komin og gert er ráð fyrir 1 áfanga hennar í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2025.
Meðal þess sem gert hefur verið er að starfsmenn sveitarfélagsins hafa sett upp tímabundin bannmerki ásamt léttri keðju við vestanverða skólalóðina til að stöðva almenna bílaumferð um lóðina. Merkingin er ætluð að stöðva umferð þar til varanlegri lausn kemur til framkvæmda næsta vor.
Uppfært deiliskipulag á skólasvæðinu gerir ráð fyrir vörulyftu við norðurenda mötuneytisins ásamt frekari breytinga innan skólasvæðisins. Fyrra skipulag á svæðinu gerði ekki ráð fyrir vörulyftu við mötuneyti skólans. Vegna þessa gefst sveitarfélaginu ekki nægjanlegur tími til að fara í nauðsynlegar skipulagsbreytingar á deiliskipulagi auk framkvæmda innan uppgefins frests í eftirlitsskýrslu HNE.
Deiliskipulagsvinnu á skólasvæðinu lauk 14. nóvember Undirbúningur vegna kaupa og uppsetningar á vörulyftu stendur yfir og má ætla að lyftan verði sett upp í síðasta lagi sumarið 2025. Frekari skermingar norðan við mötuneyti verða settar upp í samráði við skólastjórnendur svo bæta megi öryggi barna þar sem afhending á vörum og matvælum fer fram. Gert verður ráð fyrir að umferð mötuneytisbíls fari alfarið um norðurenda lóðarinnar þegar ný vörulyfta hefur verið sett upp. Þess má geta að þjónustuaðilum skólans sem eiga leið um skólalóðina á vélknúnum ökutækjum er gert að haga ferðum sínum þannig að þær fari ekki fram á skólatíma þegar börn eru í frímínútum.
Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings samþykkti nýverið að varanlegar lausnir verði komnar fyrir 1. ágúst 2025 eins og fram kemur í svarbréfi til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra.