Hús vikunnar: Sundlaug Akureyrar II. Hluti.

Þessi grein er nokkuð sérstök að því leyti, að þrátt fyrir yfirskriftina „Hús vikunnar“ fjallar hún strangt til tekið ekki um hús. En í síðustu viku fjallaði höfundur um byggingu Sundlaugar Akureyrarog taldi eiginlega nauðsynlegt í framhaldi af því, að tæpa á forsögu núverandi mannvirkja, en hún nær allt til loka 19. aldar.  

Það var á fundi Bæjarstjórnar Akureyrar þann 28. maí 1895 að Eggert Laxdal bæjarfulltrúi bar upp þá tillögu, að veitt yrði fé, 20-30kiukrónur til sundkennslu eða komið yrði upp sundpolli. Ári síðar, í maí 1896 ákvað bæjarstjórnin að verja 75 krónum til þess að koma upp sundpolli í Grófargili, með von um svipaðan styrk úr landssjóði. Árið 1897 var sundpollurinn orðinn að veruleika með stíflu í Grófargilslæknum.

Tryggvi Þorsteinsson, skólastjóri (1911-1975) lýsir sundpollinum mjög gaumgæfilega í bókinni Varðeldasögum: [...]hlaðinn var mikill torfgarður þvert fyrir Grófargilið, þar sem sundlaugarlækurinn rennur. Neðst í stíflugarðinum var tréstokkur og þegar honum var lokað myndaðist dálítil tjörn ofan við garðinn. Hún lagaði sig alveg eftir landslaginu, svo þarna mátti sjá nes og voga, og langt til vesturs lá hlykkjóttur fjörður upp lækjarfarveginn og nefndist það ,,hafsvæði” Skottið (Tryggvi Þorsteinsson 1973: 22-23). Kemur þar einnig fram, að vatnið hafi verið gruggugt, eða „eins og súkkulaði á litinn“ og hitastigið 11-15°C.

Þetta mun hafa verið um 1920 og sundpollurinn að mestu óbreyttur frá upphafi. Árið 1922 voru kantar steyptir í laugina og  rúmum áratug síðar, 1933, var heitt vatn leitt í laugina úr  laugum í Glerárgili. Þeirri miklu framkvæmd, lagningu veitustokks um 3km leið ofan úr Glerárdal, stýrði Höskuldur Baldvinsson verkfræðingur. Eftir þessar endurbætur varð laugin að jafnaði um 25-26°. Þremur árum síðar var botn steyptur í laugina og þannig komið fullburðugt laugarkar. Rúmum áratug síðar var síðan hafist handa við byggingu sundhallar.

Síðan hefur svo sannarlega mikið vatn runnið til sjávar- og í sundlaug Akureyrar. Meðfylgjandi mynd er tekin 19. júní 2015.


Athugasemdir

Nýjast