Hús vikunnar: Sundlaug Akureyrar

Síðustu vikur höfum við verið stödd á lóð Menntaskólans á Akureyri en nú bregðum við okkur eilítið utar á Syðri Brekku, að sérlegu kennileiti og vinsælum áfangastað bæjarbúa og ferðamanna. Nefnilega Sundlaug Akureyrar.

Bygging sundlaugarhússins við Þingvallastræti mun hafa hafist 1948-49 en tók langan tíma og stöðvaðist ítrekað, m.a. vegna fjárskorts. Á baksíðu dagblaðsins Íslendings þann 16. ágúst 1950 má finna mjög ítarlega umfjöllun um  „fyrirhugaða sundlaugarbyggingu“. Kemur þar fram að byggingin sé teiknuð af Bárði Ísleifssyni á skrifstofu Húsameistara ríkisins.  Þá var búið að steypa neðri hæð og kjallara en „[...]Fjárfestingarleyfi fyrir efri hæðinni vantar, auk þess sem þröngt mun vera um fjárhaginn“. Þá hafði alls verið varið 360 þúsund krónum til byggingarinnar, 300 þúsund frá bæjarfélaginu og 60 þúsund frá íþróttasjóði. En tæpum sex árum síðar, í júlí 1956 var hin nýja sundhöll vígð við hátíðlega athöfn. Var aðstaða öll hin vandaðasta. Árin 1998-2000 var byggt við húsið til suðurs og í þeirri álmu eru m.a. aðalinngangur, afgreiðsla og baðklefar kvenna. Átti arkitektastofan Form heiðurinn af hönnun stækkun sundlaugarbyggingarinnar.

Eldri álman, sem stendur við Þingvallastræti, er tvílyft steinsteypuhús með lágu valmaþaki og smærri álmu að norðvestanverðu. Nýrri álman, með aðkomu frá Skólastíg, er einlyft með flötu malarþaki. Áfastur henni er glerskáli mikill sem hýsir yfirbyggðan heitan pott, sambyggðan lauginni. Ekki þarf að fjölyrða um hina frábæru aðstöðu og margvísleg mannvirki á laugarsvæðinu, sem eru öll hin stórkostlegustu.  Að sjálfsögðu skal hér mælt  með heimsókn í Sundlaug Akureyrar, hvort sem ætlunin er að synda, slaka á í pottum eða gufu eða taka „salibunu“ í rennibrautum.  Myndin er tekin þann 8. apríl 2018.

Það er aldeilis ekki svo, að mönnum hafi fyrst hugkvæmst að byggja sundlaug á þessum stað, efst í Grófargili, um miðja 20. öld. Saga sundlaugarmannvirkja þarna er mikið lengri og í næstu grein verður tæpt á sögu Sundlaugarinnar - fyrir tíma núverandi bygginga. 

 


Athugasemdir

Nýjast