Líklega er óhætt að fullyrða að Samkomuhúsið, Hafnarstræti 57, sé eitt af helstu kennileitum Akureyrar. Húsið er einstaklega tilkomumikið og stendur á sérlega áberandi stað, á svokölluðu Barðsnefi.
Samkomuhúsið var byggt sem félagsheimili Góðtemplara árið 1906. Byggingarstjórar voru þeir Guðbjörn Björnsson og Guðmundur Ólafsson, báðir meðlimir Góðtemplarareglunnar. Þeir munu einnig hafa teiknað húsið. Húsið var vígt á Þorláksmessu 1906, en bygging þess tók einungis sex mánuði. Samkomusalur hússins var þá sá stærsti á landinu og var það allt þar til Hótel Borg í Reykjavík var byggt um 1930.
Samkomuhúsið er stórt tveggja hæða timburhús með burstum og turni á háum steyptum kjallara eða jarðhæð. Nyrsti hluti hússins er með flötu þaki, en þar er um að ræða viðbyggingu frá 1920. Á bakhlið eru steinsteyptar viðbyggingar frá 2004, en þær leystu af hólmi skúrbyggingar sem byggðar voru við húsið um miðja 20. öld. Sérkennilegir gluggapóstar, mikið útskorið skraut á burstum gefa húsinu einstaklega glæstan svip, að ógleymdu höfuðprýði hússins, áttstrendum turni fyrir miðju.
Samkomuhúsið hefur verið nýtt til leiksýninga auk ýmis konar mannfagnaða og funda óslitið í rúm 113 ár. Húsið hlaut snemma gælunafnið „Gúttó“ sem var stytting á Góðtemplarahúsinu. Akureyrarbær keypti húsið af templurum árið 1917 og nefndist það síðan Samkomuhúsið. Sama ár var Leikfélag Akureyrar stofnað, og hefur það allar götur síðan haft aðsetur og sett upp leiksýningar í Samkomuhúsinu. Amtsbókasafnið var starfrækt þarna frá byggingu og til ársins 1930, og póstafgreiðsla um skeið. Bæjarstjórn Akureyrar fundaði í Samkomuhúsinu fram á miðja 20. öld. Þá var auk þess búið í húsinu um áratugaskeið.
Árin 2003-05 voru gerðar miklar endurbætur á húsinu og umhverfi þess. Þá hefur mörg framkvæmdin farið fram innanstokks, svo ríflega aldargamalt húsið uppfylli hinar ítrustu kröfur 21. aldar til opinberra bygginga. Samkomuhúsið var friðlýst í B-flokki (ytra byrði friðað) árið 1977.
Myndin er tekin 19. ágúst 2018.