Hús vikunnar: Hafnarstræti 88; Gamli Banki

Eitt af stærstu og reisulegustu timburhúsum Akureyrar stendur sunnarlega í Miðbænum, við Hafnarstræti 88. Húsið reisti Bergsteinn Björnsson, athafnamaður úr Barðastrandarsýslu, árið 1900. Var húsið þá eitt hið stærsta í bænum, en mjög áþekkt hús að stærð og gerð, var byggt á Oddeyri árið 1897; Snorrahús við Strandgötu (rifið fyrir rúmum 30 árum). Stærri timburhús á borð við Hótel Akureyri við Aðalstræti, Samkomuhúsið og Gagnfræðaskólinn (síðar Menntaskólinn) risu fáeinum árum síðar.

Hafnarstræti 88 er háreist tvílyft timburhús á háum kjallara með háu risi. Húsið ber einkenni svokallaðra Sveitser húsa, en það voru norsk hús efnamanna, og einkenndust m.a. af miklu útskornu skrauti. Húsið er bárujárnsklætt og hefur líkast til verið  frá upphafi, svokallaður „bárujárnsveitser“.

Húsið hefur löngum kallast „Gamli Banki“ en það hýsti bankastarfsemi á fyrri hluta 20. aldar. Íslandsbanki hinn gamli var þarna frá 1904 til 1930 en 1930-39 starfaði Útvegsbankinn í húsinu. Þarna var einnig íbúð bankastjóra, en auk þess læknastofa og íbúð læknisins. Húsið kom við sögu í bók Þórbergs Þórðarsonar, Íslenskum aðli, en hann lýsir þar dvöl sinni þarna, sumarið 1912. Margir hafa búið í Hafnarstræti 88 og húsið hýst ýmsa starfsemi á sínum 120 árum. Í kjallara og á fyrstu hæð hafa löngum verið verslana- og skrifstofurými en íbúðir á efri hæðum. Of langt mál væri að telja upp hér alla þá verslun og þjónustu sem þetta ágæta hús hefur hýst.

 Í Hafnarstræti 88 eru fjórar íbúðir, skósmíðaverkstæði í kjallara og í suðurhluta fyrstu hæðar er Rakarastofa Akureyrar. Sú hugmynd, að taka Hafnarstræti 88 fyrir í þessum pistli, varð einmitt til þegar greinarhöfundur fór þangað í klippingu sl. fimmtudag.  Þessi mynd er tekin fyrir um áratug, þann 31. júlí 2010, og þar má sjá hluta þátttakenda í sögugöngu sem Gísli Sigurgeirsson leiddi með miklum glæsibrag.


Athugasemdir

Nýjast