08. mars, 2007 - 20:58
Fréttir
Akureyrarbær hefur brugðist við þeirri miklu svifryksmengun sem er í bænum með því að ráða verktaka til að þvo Glerárgötuna með vatni og er sérútbúinn dráttarvél notuð til verksins. Verktakinn er þessa stundina að störfum, framan á dráttarvélinni er búnaður til að sprauta vatni á götuna með þrýstingi og aftan í dráttarvélinni er stór vatnstankur. Eins og fram kom í Vikudegi í dag var svifryksmengunin í bænum á síðasta ári mun oftar yfir hættumörkum en áður hefur komið fram. Upplýsingar hafa verið gefnar um að mengunin hafi farið yfir „leyfileg" hámörk í 48 daga fyrstu 11 mánuði ársins, en nú hefur Alfreð Schiöth hjá Heilbrigðiseftirlitinu upplýst Vikudag um að mælarnir hafi verið bilaðir frá því í maí og fram í ágúst. Samkvæmt því má setja fram í grófum dráttum að 48 dagarnir eigi við um 8 mánuði eða um 240 daga og hefur því „leyfilegum" hámörkum mengunarinnar verið náð um það bil fimmta hvern dag. Alfreð segir að þegar mengunin fer yfir 50 mikrógrömm í rúmmetra eins og „leyfilegu" mörkin eru hafi það strax áhrif á þá sem eru veikir fyrir s.s. astmasjúklinga og þá sem eru að skokka eða hjóla um götur bæjarins. Samkvæmt norskum reglum eiga astmasjúklingar, lungnasjúklingar og þeir sem eru með hjarta- og æðasjúkdóma á hættu að finna fyrir áhrifum ef mælieiningin er 50-100 míkrógrömm. Ef talan fer yfir 100, gefa norsk heilbrigðisyfirvöld út alvarlega aðvörun til þessa fólks um að halda sig heima fyrir, þá er alvarlegt hættuástand uppi. Fjöldi þeirra daga sem fóru yfir þessi mörk á Akureyri á síðasta ári var um 20 og í þremur tilfellum var talan yfir 200 míkrógrömm.
Að sögn Alfreðs er nú verið að kanna það hjá Akureyrarbæ að festa kaup á einum eða tveimur mælum til að setja upp í bænum svo betur sé hægt að fylgjast með ástandinu og bregðast við því hverju sinni. Alfreð segir að reynt hafi verið að sópa göturnar þegar hafi verið hláka en það eitt og sér dugi skammt. „Það er árangursríkara að bleyta göturnar og t.d. gæti vel komið til greina að gera það með sjó eða söltu vatni. Í Reykjavík hafa þeir verið að prófa að nota magnesíum klór og það eru til fleiri efni sem er hægt að nota," segir Alfreð í samtali við Vikudag í dag.