28. febrúar, 2011 - 17:53
Fréttir
Varnarjaxlinn í liði Akureyrar, Hreinn Þór Hauksson, mun ekki spila með liðinu næstu vikurnar í það minnsta í N1-deild karla
í handbolta vegna meiðsla. Hreinn varð fyrir hnjaski í bikarleiknum gegn Val á laugardaginn var og þar rifu sig upp nárameiðsli sem hafa plagað
Hrein í vetur. „Þetta lítur betur út í dag en á laugardaginn en ég veit svo sem ekkert hvað verður. Ég á eftir að
fá greiningu hjá læknum og sjúkraþjálfurum,” sagði Hreinn Þór í samtali við Vikudag.
Ef allt fer á versta veg gæti svo farið að Hreinn spili ekkert meira með Akureyrarliðinu í vetur. „Ég missi pottþétt af nokkrum
leikjum en ég ætla að leyfa mér að halda að ég nái að koma aftur inn í liðið áður en mótið
klárast,” segir hann.
Þetta er mikið áfall fyrir Akureyrarliðið en liðið hefur þegar misst Geir Guðmundsson í meiðsli, sennilega út leiktíðina.
Fari svo að Hreinn verði ekki meira með í vetur, er ljóst að stórt skarð er höggvið í varnarleik norðanmanna.