Hönnunar- og handverksmessa í sal Rauða krossins

Kristín S. Bjarnadóttir og Hulda Ólafsdóttir forsprakkar Hönnunar- og handverksmessu sem haldin er í…
Kristín S. Bjarnadóttir og Hulda Ólafsdóttir forsprakkar Hönnunar- og handverksmessu sem haldin er í sal Rauða krossins við Viðjulund um helgina. Opið er í dag frá 11 til 17. Mynd MÞÞ

„Í fjarveru stórrar handverkshátíðar sem hefur gefið og glatt, og er saknað, er sjálfgefið að bretta upp ermar og skapa sinn eigin farveg,“ segja þær Kristín S. Bjarnadóttir og Hulda Ólafsdóttir sem skipulagt hafa Hönnunar- og handverksmessu. 

Hún er haldin í sal Rauða krossins, Viðjulundi 2 á Akureyri um helgina, var opnuð í gær og verður opin frá 11 til 17 í dag, sunnudag.Um er að ræða fjölbreytta sölusýningu þar sem markaðsstemning ræður ríkjum, frítt er inn, heitt á könnunni í boði Nýju kaffibrennslunnar og margt fallegt að sjá og skoða af skapandi vörum af ýmsu tagi.

 Kristín og Hulda hafa tvívegis áður efnt til Hönnunar-  og handverksmessu og segja að vel hafi verið tekið við þeim viðburðum. „Við vonum sannarlega að svo verði einnig nú, við finnum að fólk hefur áhuga fyrir að líta við, handverkshátíðin hefur skipað stóran sess hjá mörgum sem þótt hefur ómissandi að líta þar við. Nú getur fólk glatt hjarta sitt með því að líta til okkar um helgina og sjá hvað er í boði hjá þeim sem taka þátt að þessu sinni,“ segja þær.

 Alls 13 aðilar taka þátt nú og eiga þeir það sameiginlegt að sinna sköpunarvinnu sinni hver á sínum stað. „Við erum öll að vinna ein, því er svo mikilvægt að skapa vettvang fyrir fólk til að koma saman og kynna varning sinn, bera saman bækur, kynnast hvert öðru  og búa til tengslanet. Reynslan sýnir að það gefur okkur öllum mikið,“ segir Kristín.

 Hugmyndin kviknaði fyrst fyrir tveimur árum þegar ljóst var að Handverkshátíð yrði ekki á Hrafnagili vegna kórónuveirunnar. Litlir sameiginlegir markaðir handverksfólks af Norðurlandi voru haldnir með þeim takmörkunum sem þá voru í gildi, grímuskyldu og ákveðnum fjölda í rými. „Þetta gekk upp og allir voru ánægðir. Nú er engar takmarkanir í gangi og við finnum fyrir vaxandi stemmningu. Við eigum von á fjölda gesta sem mæta örugglega allir með góða skapið,“ segir Hulda.

Í boði verður varningur af margvíslegu tagi, handverk, hönnunarvörur, matarhandverk og drykkjarvörur. „Þetta er góður tími til að kynna sínar vörur, frá hausti fram til jóla er yfirleitt okkar tími sem erum í þessum bransa. 


Athugasemdir

Nýjast