Hljómsveitin Eagles heldur tónleika í Hofi á Akureyri

Samkomulag hefur tekist við meðlimi stórhljómsveitarinnar The Eagles um að þeir leiki á tónleikum í Hofi þann 10. júní  nk.  Hljómsveitin leikur í Laugardagshöll þann 9. júni nk. og á Akureyri daginn eftir. Það er Haukur Tryggvasson tónleikahaldari á Græna hattinum sem hefur forgöngu um þessa tónleika.  

Haukur sagði í samtali við Vikudag í morgun að tónleikarnir séu einstakir og þessi niðurstaða sé einstaklega ánægjuleg, ,,Einkum í ljósi þess að heimþekktir tónlistarmenn hafi ekki mikið verið á spila hér fyrir norðan en með tilkomu Hofs séu flestir vegir færir." Haukur sagði að um væri að ræða svokallaða "unplugged" tónleika, sem gerir þetta mögulegt. "Þeir koma eingöngu með sín hljóðfæri, allur annar búnaður er til á staðnum."

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Hofs var einnig í sjöunda himni og sagði  það frábært að náðst hefði samkomulag við Eagles. Þá væri það ekki verra að hljómsveitin er í miklu uppáhaldi hjá henni. 

Miðasala hefst í dag í Hofi kl. 15.30 og eru einungis 500 miðar í boði.  Verð pr. miða er kr. 19.900.  Haukur hvetur fólk til þess að mæta tímanlega til að tryggja sér miða því líklegt verður að telja að mikill áhugi verði fyrir tónleikunum.

Nýjast