Hjartastuðtæki í flutningabílum Landflutninga-Samskipa

Í tilefni alþjóðlega Hjartadagsins, sem haldinn er í tíunda sinn á heimsvísu á sunnudaginn, hafa Landflutningar-Samskip ákveðið að koma fyrir alsjálfvirkum hjartastuðtækjum í flutningabílum á öllum helstu akstursleiðum félagsins. Þetta er gert til að auka almennt öryggi vegfarenda en hver mínúta getur skipt máli ef einstaklingur fær hjartastopp og þá er mikilvægt að hafa réttan búnað við höndina.  

„Bílarnir okkar eru alltaf á ferðinni og okkur er umhugað um öryggi samferðarmanna okkar," segir Ingi Þór Hermannsson, forstöðumaður Landflutninga um þessa ákvörðun félagsins. Til að byrja með verður hjartastuðtækjum komið fyrir í bílum sem aka milli Reykjavíkur og Norðurlands, Austurlands og Vestfjarða en samkvæmt tölfræðinni er útkallstími vegna hjartaáfalla á þjóðvegum landsins yfirleitt lengri en 5 mínútur. Það getur því skipt sköpum að hafa svona tæki í vöruflutningabílum Landflutninga-Samskipa en tækin eru sömu tegunadar og hjartastuðtækin sem eru í öllum sjúkrabílum landsins, þyrlu Landhelgisgæslunnar og víðar. Tækin eru alsjálfvirk, krefjast ekki sérfræðiþekkingar og eru mjög einföld í notkun. Bílstjórar félagsins verða þjálfaðir í notkun þeirra á næstunni og munu þá geta brugðist hratt við, ef á reynir, og veitt aðstoð.

„Það eru GPS tæki í flutningabílunum og alltaf hægt að staðsetja þá nákvæmlega ef þörf er á aðstoð. Það má því segja að kjörorð okkar- á ferðinni fyrir þig - eigi vel við en með þessu viljum við leggja okkar af mörkum við björgun mannslífa," segir forstöðumaður Landflutninga. Slökkvilið höfuðboragarsvæðisins fær um 300 útköll á hverju ári vegna hjartastopps og samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Hjartaverndar deyja árlega um 700 manns á Íslandi vegna sjúkdóma í blóðrásarkerfi, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast