Hetjur húsvískrar menningar stíga á svið

Það var rífandi stemning í Vinakoti þegar blaðamaður leit við á æfingu á dögunum. Full ástæða til að…
Það var rífandi stemning í Vinakoti þegar blaðamaður leit við á æfingu á dögunum. Full ástæða til að fullyrða að hún verði enn betri í Húsavíkurkirkju á morgun sunnudag. Myndir/epe.

Tónleikasýningin „Hetjur“ á vegum Tónasmiðjunnar fer fram í Húsavíkurkirkju á morgun, sunnudag klukkan 16.

Tónasmiðjan á Húsavík þekkja orðið flestir bæjarbúar en þar hefur verið unnið mikið og   skapandi starf fyrir fólk á öllum aldri sem hefur áhuga á tómstundum, tónlist, söng og menningu. Elvar Bragason hefur starfrækt Tónasmiðjuna í sjö ár ásamt frænku sinni, Hörpu Steingrímsdóttur og staðið fyrir þremur stórum tónleikasýningum á ári hverju þar sem ágóði rennur til ýmissa velgjörðamála.

Nú er komið að enn einni stórsýningunni en á sunnudag nk. verður rokkað í Húsavíkurkirkju undir yfirskriftinni „Hetjur“ til styrktar langveikum börnum, en ágóði af sýningunni rennur til Umhyggju, félags langveikra barna.

Tónleikarnir hefjast klukkan 16 og heiðursgestir eru ekki af verri endanum fremur en endranær en það eru engin önnur en Diljá; Júróvisjónhetja síðasta árs og Krummi sem gjarna er kenndur við þungarokkssveitina Mínus.

Hetjur 6

 Eins og vel smurð vél

Elvar sagði að listafólk Tónasmiðjunnar væri á öllum aldri og allir að verða mjög spenntir að koma fram en blaðamaður Vikublaðsins leit við á æfingu á þriðjudagskvöld. Þar vantaði sko ekki kraftinn og flytjendur að verða vel samkeyrðir enda margir búnir að vera með Tónasmiðjunni frá upphafi.

Þá lofar Elvar mikilli fjölbreytni á efnisskránni, þar sé að finna lög sem Raggi Bjarna gerði ódauðleg, harðkjarnarokk úr smiðju Hljómsveitarinnar Mínus og allt þar á milli.

„Þetta er að verða svo magnað, þetta er orðið svo þétt og flott,“ segir Elvar hughrifinn og bætir við að metnaðurinn í öllu starfi Tónasmiðjunnar aukist bara ár frá ári.

 Allir skipta máli

„Við erum til dæmis með sex rafmagnsgítara í þessari sýningu og hver og einn sem tekur þátt  er að gera sitt því allir skipta máli. Maður þakkar bara fyrir að maður sé enn þá sjálfur að spila því hinir fara bara að taka við,“ segir Elvar og hlær.

Hetjur 5

Góður andi á nýjum stað

Eins og gengur þá er ekki alltaf á vísan að róa þegar kemur að húsnæði fyrir menningarstarfsemi á borð við Tónasmiðjuna en hún hefur margsinnis þurft að flytja sig um set frá stofnun. Nú er Tónasmiðjan hins vegar komin á góðan stað þar sem öllum líður vel. „Við erum komin í Baldursbrekku 22 sem er í eigu Húsavíkursóknar, það sem við köllum Vinakot. Þau komu færandi hendi þegar við vorum að lenda á götunni eftir að síðasta húsæði var selt undan okkur. Sóknarnefnd kom færandi hendi og bauð okkur velkomin,“ segir Elvar glaður í bragði.

Tónleikasýningar Tónasmiðjunnar hafa vaxið í vinsældum ár frá ári og jólasýningin var til að mynda færð yfir í Íþróttahöllina á síðasta ári. Sýningin hetjur verður engu að síður á heimavelli Tónamiðjunnar, Húsavíkurkirkju en þar hafa flesta sýngarnar farið fram.

„Að þessu sinni verðum við í Kirkjunni, hún er svona okkar rokk staður,“ segir Elvar.

Hetjur 2

 Útrás Tónasmiðjunnar

Það er fleira á döfinni hjá Tónasmiðjunni á næstunni en gamall draumur Elvars er að verða að veruleika þegar Tónasmiðjan leggur land undir fót í júní. „Það sem við erum að gera nýtt á næstunni er að við erum að fara með Tónasmiðjuna út á land, verðum með sýningu í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík 9. júní.  Þar munu jafnframt sex ungmenni frá Dalvík slóst í hópinn og koma fram með okkur. Mig hefur alltaf langað til að fara með þetta verkefni út á land og leyfa fólki annars staðar á landinu að kynnast starfinu okkar og jafnvel að fá ungmenni á staðnum til að taka þátt. Ef vel gengur þá munum við halda þessu áfram og heimsækja fleiri  staði,“ segir Elvar að lokum.

hetjur


Athugasemdir

Nýjast