Heimir: Var orðinn stressaður

Heimir Örn Árnason fyrirliði Akureyrar var ánægður í leikslok eftir 23:20 sigur liðsins gegn FH heimavelli í kvöld í undanúrslitum bikarkeppninnar. Akureyri leikur fyrir vikið til úrslita gegn Val, laugardaginn 26. febrúar. Heimir stýrði sóknarleik Akureyrar með harðri hendi en sjálfur skoraði hann fimm mörk. „Mér líður bara mjög vel,” sagði Heimir, vel sveittur í samtali við Vikudag eftir leik. Hann viðurkenndi þó að það var farið að fara um hann undir lokin þegar FH var nálægt því að jafna leikinn. 

„Ég var reyndar orðinn mjög stressaður í lokin þegar þeir minnkuðu þetta niður í eitt mark. Það var eitthvern veginn allur kraftur farinn úr okkur síðasta korterið, enda vorum við búnir að nota rosalegan kraft allan tímann í þessa vörn hjá okkur. En við unnum þetta og mér alveg sama hvernig fórum að því,” sagði Heimir.

Kristján: Of margir lykilmenn að klikka

Kristján Arason þjálfari FH var sár og svekktur í leikslok, enda voru gestirnir ansi nálægt því að jafna metin undir lokin og knýja fram í það minnsta framlengingu. Kristján var sérstaklega óánægður með sóknarleikinn, enda komust FH-ingar lítt áleiðis gegn sterkum varnarmúr Akureyrar.

„Sóknin brást bara og of mikið af lykilmönnum sem finna sig ekki í dag. Strákar eins og Ási og Óli (Ásbjörn Friðriksson og Ólafur Guðmundsson) sem hafa staðið sig vel finna sig ekki í kvöld," sagði Kristján við Vikudag eftir leik. 

Við erum allan tímann í eltingarleik sem er erfitt. Við spiluðum þó ágætan seinni hálfleik en það kom tíu mínútna kafli sem gerði út um leikinn þegar við misstum þá sjö mörkum frá okkur. Það var of mikið en svona fór þetta og ég vil bara óska Akureyri til hamingju,” sagði Kristján. 

Nýjast