Heimir: Geggjað að lyfta bikarnum

Heimir Örn Árnason, fyrirliði Akureyrar Handboltafélags, fékk þann heiður að lyfta fyrsta titli félagsins þegar deildarbikarinn fór á loft í Höllinni eftir tapleikinn gegn Aftureldingu í kvöld í N1-deild karla. Leikmenn Akureyrar voru fljótir að jafna sig eftir tapið, 21:24, og brutust út mikil fagnaðarlæti í Höllinni þegar bikarinn fór á loft fyrir framan 859 áhorfendur. „Það var geggjað að lyfta bikarnum og frábær tilfinning að gera það fyrstur manna fyrir þetta félag,” sagði Heimir við Vikudag eftir leik.

Hann viðurkenndi að leikur sinna manna í kvöld hafi ekki verið upp á marga fiska.

„Við vorum 2-3 mínútur að jafna okkur eftir leikinn en svo var það bara búið. Þetta var ömurlegur leikur hjá okkur. Við ætluðum að reyna að gíra okkur upp en það tókst bara ekki. Við vorum bara komnir með hugann við bikarinn og vorum að hvíla lykilmenn en á fimmtudaginn næsta ætlum við sýna betri leik gegn Fram. Það var svo sem ágætt að norðanmaður var sennilega að tryggja Aftureldingu áframhaldandi sæti í deildinni,” sagði Heimir og vísaði þar til Hafþórs Einarssonar sem var erfiður viðureignar í kvöld í marki gestanna. 

Hafþór: Gekk vel í kvöld 

Sem fyrr segir átti Hafþór Einarsson markvörður Aftureldingar stórleik og skóp hann sigurinn fyrir sitt lið í kvöld með 26 skot varin í leiknum.

„Þetta gekk rosalega vel í kvöld hjá mér. Þetta var mikilvægur sigur fyrir okkur og sætið er tryggt. Fyrir okkur var þetta baráttuleikur og við lögðum upp með það að berjast,” sagði Hafþór, sem gaf sér tíma til að hrósa sínum gömlu félögum í Akureyri fyrir gott gengi í vetur.

 

„Þetta var náttúrulega komið hjá þeim fyrir leikinn í kvöld svo það er ekki alveg marka þann leik. Þeir hafa verið frábærir í vetur og það verður mjög gaman að fylgjast með þeim í úrslitakeppninni,” sagði Hafþór.

Nýjast