Hefur allt sem þarf

Vilborg Gunnarsdóttir skrifar.
Vilborg Gunnarsdóttir skrifar.

Fyrstu kynni mín af Höllu Tómasdóttur voru í tengslum við vinnustað þar sem hún kom einn dag og ræddi við hópinn. Þessi dagur breytti svolítið lífi mínu því þarna uppgötvaði ég í raun hvernig ég get tekið stjórn á eigin lífi.

Halla varpaði á skjá mynd af vatnsglasi sem í var vökvi um það bil að miðju glasi. Hún talaði um viðhorf okkar og hvernig við tökumst á við það sem lífið færir okkur.

Stundum verðum við fyrir mótlæti – misjafnlega alvarlegu – en með því að temja mér viðhorf Höllu um að horfa alltaf á glasið hálf fullt, í stað hálf tómt breyttist allt. Að velja hvernig við bregðumst við þegar á móti blæs með jákvæðni í stað þess að sjá allt svart, er svo gott.

Eftir þennan fund var ég svo lánsöm að fá að kynnast Höllu betur. Fékk að heyra um gildin hennar og sýn á framtíðina sem hún brennur fyrir. Ég var ein af þeim sem kaus Höllu fyrir átta árum þar sem mér fannst hún þá, eins og nú, sú eina sem raunverulega hefur það sem þarf til að verða forseti Íslands.

Og hvað er það, kann einhver að spyrja. Halla brennur fyrir málefnum sem eru mér mikilvæg. Þar má nefna jafnrétti í sinni breiðustu mynd, umhverfismál og heiðarleika í viðskiptum. Þessi eru meðal margra góðra gilda Höllu sem hún brennur fyrir og hefur alltaf talað fyrir – ekki bara núna í aðdraganda þessara kosninga. Halla Tómasdóttir þurfti ekki að grafa þau upp og pússa upp á nýtt. Þá þurfti hún ekki heldur að „hreinsa“ samfélagssíðurnar sínar. Hún er einfaldlega það sem hún segist vera og hefur allt sem þarf.

Það að eiga kost á því að velja konu eins og Höllu Tómasdóttur sem forseta Íslands eru forréttindi og tækifæri sem við megum ekki sleppa. Halla mun sem forseti Íslands vekja athygli hvar sem hún kemur fyrir sitt hlýlega viðmót og glæsileika. Hún mun tengja saman fólk sem vill vinna að mikilvægum málum og tala fyrir mikilvægi Íslands sem miðju góðra gilda.

Ég hvet þau sem ekki hafa gert upp hug sinn að kynna sér þau málefni sem Halla Tómasdóttir stendur fyrir og ákveða svo hvert krossinn fer á kjörseðlinum.

Höfundur er stuðningsmaður Höllu Tómasdóttur frambjóðanda til embættis forseta Íslands.


Athugasemdir

Nýjast