06. júlí, 2007 - 10:40
Fréttir
Stjórnvöld hafa gefið grænt ljós á nýbyggingu við Háskólann á Akureyri sem áformað er að taka í notkun haustið 2009. Með tilkomu nýju byggingarinnar flyst öll starfsemi skólans úr Þingvallastræti og verður þá svo til öll komin á Sólborgarsvæðið. Í nýju byggingunni, sem verður um 2 þúsund fermetrar að stærð, verða fyrirlestrasalir, kennslustofur og aðalanddyri skólans. Að sögn Þorsteins Gunnarssonar, rektors skólans og formanns bygginganefndar, mun nýja byggingin bæta mjög úr brýnni þörf fyrir aukið kennslurými og fagnar hann sérstaklega að skólinn fái þá góða fyrirlestrasali. Reiknað er með að byggingin fari í útboð fljótlega og að verklegar framkvæmdir geti hafist í haust.