Líkt og undanfarin ár var gestkvæmt hjá auðlindadeild þetta sumarið. Rannsóknastofur deildarinnar, þekking og reynsla kennara og rannsóknafólks hennar eru eftirsóttar auðlindir fyrir erlenda rannsóknahópa sem nýta sér hið stutta íslenska sumar til rannsóknaleiðangra.
Meðal gesta í ár var hópur á vegum prófessor Javier Martin-Torres frá háskólanum í Luleå í Svíþjóð. Verkefni þeirra var að setja upp til prófana á hálendi Íslands mælitæki sem notuð verða í seinni ExoMars leiðangri ESA og Roscosmos sem áætlað er að senda til reikistjörnunnar Mars árið 2020. Mælitækin sem um ræðir nefnast HABIT (habitability, brine irradiation and temperature package) og verða þau notuð til að skima eftir ummerkjum um örverulíf á Mars, meta útfjólubláa geislun við yfirborð Mars og til að prófa tækni til vatnsvinnslu úr marsneskum jarðvegi sem nýst gæti við mannaða leiðangra í framtíðinni.
Martin-Torres og samstarfsfólk hans setti upp HABIT tækjasamstæðuna á nokkrum stöðum á hálendinu þar sem þau verða til prófana fram á haust. Við staðarval og úrvinnslu jarðvegssýna frá prófunarstöðunum nutu þau aðstoðar og leiðsagnar sérfræðinga auðlindadeildar undir stjórn Odds Vilhelmssonar, prófessors við auðlindadeild, og verður áfram unnið að örverufræðirannsóknum á téðum jarðvegssýnum undir hans stjórn í vetur.
Hugmyndin er að fá yfirsýn yfir örverulífríki í Mars-líku umhverfi á Íslandi og athuga hvort draga má áreiðanlegar ályktanir um örverulíf af mælingum HABIT tækjasamstæðunnar þegar hún tekur til starfa á Mars að fjórum árum liðnum. Það má því með sanni segja að við Háskólann á Akureyri séu nú hafnar rannsóknir á örverulífi fjarlægra pláneta.