Skólarnir sem hér um ræðir eru háskólarnir á Akureyri, á Bifröst og í Reykjavík, en alls munu 18 fræðimenn
úr þessum skólum bregðast við tilteknum þáttum í skýrslunni og spurningum sem hún vekur upp. „Ráðstefnan verður
fyrst haldin í Reykjavík á laugardag, en daginn eftir kemur hún með manni og mús hingað norður enda á hún ekki síður erindi
við okkur en fólk á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Birgir. Ráðstefnan sem hefur yfirskriftina „Eftir skýrsluna: Hvað
næst“ mun samanstanda af sex málstofum sem taka við hver af annarri og fjalla um bankana, hagstjórnina, hvernig ákvarðanir voru teknar, hlut
fjölmiðla, háskólafólks og annarra fagstétta, völd og ábyrgð á opinberum vettvangi og loks hvernig eigi að vinna úr og gera
hrunið upp.
Ráðstefnan verður í stofu L201 á Sólborg og hefst kl 10. á sunnudagsmorguninn og stendur með eðlilegum hléum fram til kl 17:30. Allir
eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir og aðgangur er ókeypis. Dagskrá ráðstefnunnar má sjá hér að neðan:
Málstofur
10.00-10.55. Bankarnir: Hvernig störfuðu bankarnir? Hvernig útveguðu þeir fé og hvernig
lánuðu þeir út fé? Hvernig má skýra helstu ákvarðanir stjórnenda þeirra? Af hverju réðust þær? Einkenndist
stefnumótun bankanna af ofmetnaði?
a) Hvers vegna náðu bankarnir til sín svona miklu fjármagni og hvernig? Fjármögnun og útlán bankanna. Guðrún Johnsen, lektor við Háskólann í Reykjavík.
b) Ofmetnaður, dramb. Hvað fólst í íslensku leiðinni? Svanborg Sigmarsdóttir, stundakennari við Háskólann
á Bifröst.
c) Hjarðhegðun m.t.t. skýringa á ákvörðunum innan bankanna. Hvar fóru íslensku bankarnir út af sporinu?
Stefán Kalmansson, aðjúnkt við Háskólann á Bifröst.
11.00-11.55 Hagstjórn: Hvaða mat er hægt að leggja á gæði hagstjórnar í undanfara hrunsins? Hvernig sinntu
ríkið og Seðlabankinn hlutverki sínu og ábyrgð? Stöðugleiki og eftirlit á fjármálamarkaði.
a) Hugmyndafræði. Hver var hún og áhrif hennar? Hagstjórn – ríkisfjármál, peningastefna. Helgi Bergs, lektor við
Háskólann á Akureyri.
b) Fjármálastöðugleiki og eftirlit með fjármálamörkuðum – hvað brást? Friðrik Már Baldursson, prófessor
við Háskólann í Reykjavík.
c) Af hverju hrundi bankakerfið á tveimur vikum? Hvað hefði mátt gera öðruvísi? Hanna Katrín Friðriksson, stundakennari við
Háskólann á Bifröst og stundakennari við Háskólann í Reykjavík.
13.00-13.55. Ákvarðanir: Hvernig voru þær ákvarðanir sem skiptu sköpum í aðdraganda hrunsins teknar? Hvernig breyttust
valdahlutföll og valdastrúktúr í samfélaginu við vöxt banka og viðskiptalífs? Hvernig er hægt að skýra pólitískar
ákvarðanir sem teknar eru jafnvel þó ljóst sé að þær þjóna ekki þeim tilgangi sem þær eiga að
þjóna? Stjórnmálasiðferði. Lýðræði.
a) Hvernig voru ákvarðanir teknar? Hvernig er hægt að skýra faglega rangar ákvarðanir hjá hinu opinbera? Jón Ólafsson,
prófessor við Háskólann á Bifröst.
b) Hver hafði völd og hver réði hverju? Ágúst Þór Árnason, aðjúnkt við Háskólann á Akureyri.
c) Áhrif þjóðernisorðræðunnar á ákvarðanir. Eiríkur Bergmann Einarsson, dósent við Háskólann á
Bifröst.
14.00-14.55. Hlutverk og ábyrgð fagstétta: Var faglegum sjónarmiðum varpað fyrir róða í aðdraganda hrunsins?
Samfélagslegt hlutverk fagfólks og háskólafólks. Hver var staða fjölmiðla? Hvernig tengdust einkahagsmunir og almannahagsmunir?
a) Hvað er að vera fagstétt? Sigurður Kristinsson, dósent við Háskólann á Akureyri.
b) Háskólar, staða þeirra og hlutverk. Njörður Sigurjónsson, lektor við Háskólann á Bifröst.
c) Fjölmiðlar, staða þeirra og hlutverk. Birgir Guðmundsson, dósent við Háskólann á Akureyri.
15.30-16.25. Völd og ábyrgð hjá hinu opinbera: Hvernig var háttað eftirliti með stjórnsýslunni? Hvert var hlutverk laga,
þar á meðal lagasetningar EES. Réði íslensk stjórnsýsla ekki við EES löggjöf? Að hve miklu leyti má sjá galla í
löggjöf sem orsakavald í hruninu?
a) EES og gæði lagasetningar. Páll Þórhallsson, aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík.
b) Formleysi í stjórnsýslunni: Valdheimildir og ábyrgð. Undirbúningur ákvarðana, annarra en stjórnvaldsákvarðana.
Margrét Vala Kristjánsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík.
c) Takmörk laga og viðhorf til þeirra. Ingibjörg Þorsteinsdóttir, dósent við Háskólann á Bifröst.
16.30-17.30. Uppgjör: Hvernig á að gera upp við fortíðina? Getur réttlætið náð fram að ganga? Hvernig á að meðhöndla þá sem ábyrgðina bera, pólitíska, siðferðilega og lagalega? Hverjum þarf að bæta tjón? Hver situr á endanum uppi með tjónið?
a) Hvað þarf að gera til að setja punkt. Refsiábyrgð. Sigurður Tómas Magnússon, prófessor við Háskólann í
Reykjavík.
b) Er hægt að endurheimta eitthvað af fénu? Bótaábyrgð. Guðmundur Sigurðsson,
prófessor við Háskólann í Reykjavík.
c) Sannleikur og réttlæti: Tilkall til gæða, tjón og almannaheill. Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við
Háskólann á Akureyri.