Hálka á Öxnadalsheiði, í Eyjafirði og austur í Öxarfjörð

Vegir eru nánast auðir í Húnavatnssýslum en hálka er á Þverárfjalli og í Skagafirði. Þá er hálka og skafrenningur á Öxnadalsheiði en víðast hálkublettir í Eyjafirði og austur í Öxarfjörð. Á Norðausturlandi er óveður bæði á Mývatnsöræfum og út við ströndina, á Hófaskarði, í Þistilfirði og á Brekknaheiði.  

Verið er að moka Vopnafjarðarheiði sem enn er þungfær. Ófært er á Fjarðarheiði og Vatnsskarði eystra en þar er óveður. Þæfingsfærð er á Oddsskarði og Fagradal. Varað er við flughálku í Fáskrúðsfirði og með ströndinni suður um, alveg vestur að Mýrdalssandi. Á Vesturlandi er víða orðið autt en þó er hálka á Bröttubrekku og hálkublettir á Holtavörðuheiði, Svínadal og víðar á fáfarnari leiðum. Það er ófært á Klettshálsi og Kleifaheiði en unnið er að mokstri. Snjóþekja er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum en Djúpið er þungfært. Það er hálka eða snjóþekja á allnokkrum vegum á Suðurlandi, jafnvel þæfingur sumstaðar í uppsveitum. Þó er Hringvegurinn auður vestan Hvolsvallar og það er autt bæði á Hellisheiði og í Þrengslum, segir á vef Vegagerðarinnar.

Nýjast