Hagnaður Norðlenska rúmar 170 milljónir króna í fyrra

Árið 2010 var Norðlenska nokkuð hagfellt. Ársvelta félagsins var 4.120 m.kr. og jókst um 11% á milli ára. Hagnaður ársins var 171 m.kr. og eigið fé er orðið jákvætt um 95 m.kr. en var neikvætt í byrjun ársins. Skuldastaða félagsins hefur batnað verulega og hafa vaxtaberandi skuldir lækkað um 687 m.kr. á milli ára sem gerir fyrirtækið mun rekstrarhæfara en áður. Þetta kom fram á aðalfundi félagsins í dag.  

Hagnaður ársins var til kominn vegna leiðréttra, erlendra lán og lækkandi vaxtastigs í landinu auk hagræðingar í rekstri. Gætt hefur verið mikils aðhalds og tekið á flestum rekstrarliðum og fyrirtækið er nú á góðri siglingu út úr kreppunni. „Mikilvægast er að hlúa að fyrirtækinu og halda áfram að styrkja innviði þess," segir í skýrslu stjórnar.  Að sögn Sigmundar Ófeigssonar, framkvæmdastjóra Norðlenska var árið erfitt framan af, en er á það leið varð meira jafnvægi í rekstrinum. Útflutningsmarkaðir löguðust umtalsvert seinnihluta árs auk þess sem veik króna styrkti afkomu útflutnings. Verð fyrir útflutt kjöt hækkaði verulega m.a vegna skorts á lambakjöti á erlendum mörkuðum. „Þetta hafði í för með sér hærra skilaverð á útfluttu kjöti sem og möguleika á auknum útflutningi sem skapaði meira jafnvægi á heimamarkaði. Félagið er þó mjög viðkvæmt fyrir sveiflum í krónunni eins og önnur fyrirtæki sem flytja út vörur," sagði Sigmundur.

Hagnaður Norðlenska árið 2010 var 171 m.kr. á móti 78 m.kr. tapi árið 2009. EBITDA ársins varð 214 m.kr. en var 208 m.kr. árið áður. Stjórn Norðlenska er skipuð eftirtöldum aðilum: Heiðrún Jónsdóttir, Garðabæ, stjórnarformaður, Ingvi Stefánsson, Teigi, varaformaður,Geir Árdal, Dæli, ritari, Aðalsteinn Jónsson, Klausturseli, meðstjórnandi, Sigríður Elín Sigfúsdóttir, Reykjavík, meðstjórnandi. Varamenn eru: Þórarinn Ingi Pétursson, Grýtubakka 1, Gróa Jóhannsdóttir, Hlíðarenda og Jón Benediktsson, Auðnum.

Nýjast