Hafa áhyggjur af umferðarhraða í tveimur götum

Á síðasta fundi skipulagsnefndar Akureyrar voru tekin fyrir erindi frá íbúum bæjarins, sem bæjaráð vísaði til nefndarinnar. Erindin lúta að m.a. áhyggjum fólks af umferðarhraða, annars vegar um Hrafnagilsstræti og hins vegar um Tjarnatún en báðar þessar götur eru skilgreindar sem 30 km götur.  

Íbúinn við Hrafnagilsstræti leggur til að hraðahindrunum verði fjölgað í götunni. Skipulagsnefnd bendir á að Hrafnagilsstræti er skilgreind sem 30 km gata. Einnig eru 3 hraðahindranir í götunni og umferðarljós með hraðahindrunum á gatnamótum Þórunnarstrætis og Hrafnagilsstrætis. Skipulagsnefnd óskar eftir við framkvæmdaráð að gengið verði frá 30 km hliði við gatnamót Mýrarvegar, að hraði í götunni verði mældur og að skoðaður verði kostnaður við uppsetningu 5 hraðamyndavéla í bænum.

Íbúarnir við Tjarnatún vilja að létt að létt verði á umferðinni um götuna, sem þau telja vera of mikla og of hraða. Gatan er skilgreind 30 km gata. Þeir benda á að nauðsynlegt sé að kannað verði hvort ekki megi gera úrbætur áður en hverfið byggist frekar upp og þá helst þannig að akstursleiðum út úr hverfinu verði fjölgað. Fram kemur í bókun skipulagsnefndar að samkvæmt deiliskipulagi Naustahverfis er gert ráð fyrir tveimur innkeyrslum í þennan hluta hverfisins frá Naustagötu þ.e. um Tjarnartún og Vallartún auk innkeyrslu frá Kjarnagötu. Samkvæmt því ætti umferð að dreifast jafnt um hverfið sem ætla má að sé fyrst og fremst vegna umferðar íbúa í grennd við umræddar götur.

Skipulagsnefnd óskar eftir við framkvæmdaráð að gengið verði frá 30 km hliði við Naustagötu og óskar jafnframt eftir áætlun um uppsetningu hliða og annarra aðgerða vegna 30 km hverfa í bænum.

Nýjast