„Hæ ástin, þarf að milli­færa, getur þú sam­þykkt beiðnina?“

Heiðrún E. Jónsdóttir
Heiðrún E. Jónsdóttir

„Hæ ástin, þarf að millifæra, getur þú samþykkt beiðnina?“ er dæmi um skilaboð sem einstaklingur fær frá maka sínum á Facebook Messenger sem virðast saklaus þar sem óskað er eftir að samþykkja beiðni um innskráningu í heimabanka með rafrænum skilríkjum. Við treystum okkar nánustu og erum því líkleg til að fara eftir fyrirmælunum í slíkum tilfellum, án þess að velta því endilega mikið fyrir okkur.

Slíkt getur þó verið afar varasamt og ætti að forðast. Það eru því miður mörg dæmi um að í slíkum tilfellum séu í reynd að svikarar að baki skilaboðunum sem hafa komist yfir Messenger aðgang einstaklinga. Svikararnir fara að senda skilaboð á grunlausa Facebook vini og ættingja viðkomandi í von um að komast yfir fjárhags- eða persónuupplýsingar á borð við kortanúmer eða aðgang að rafrænum skilríkjum og heimabanka.

„Hæ, hvað er símanúmerið þitt?“

Einnig er algengt að fólk fái upp úr þurru Messenger skilaboð frá Facebook vini sem biður um símanúmer móttakandans. Í kjölfarið hefjast samskipti sem hafa það að markmiði að ná upp úr þeim viðkvæmum fjárhagsupplýsingum eða lykilorðum.

Tilraunum til svokallaðra Messenger svika, líkt og margra annarra gerða svika, hefur farið mjög fjölgandi á síðustu árum og eru dæmi um að svikahópum hafi tekist að svíkja talsverðar fjárhæðir frá einstaklingum sem töldu sig vera í samskiptum við einstakling sem það þekkir vel.

Við vitum aldrei hver sér skilaboðin okkar

Því er mikilvægt að hafa þá reglu að deila aldrei viðkvæmum fjárhagsupplýsingum, lykilorðum eða aðgangsorðum í stafrænum samskiptum, hvort sem það er við vini, kunningja, vinnufélaga eða okkar allra nánustu fjölskyldu. Í netheimum getum við aldrei verið fyllilega viss um hver sé að lesa skilaboðin okkar eða eigi eftir að lesa þau síðar.

Taktu þér tíma og vertu viss

Áður en þið deilið viðkvæmum fjárhags- eða persónuupplýsingum er mikilvægt að ganga úr skugga um að ekkert sé óvenjulegt í samskiptunum, hvort sem það snýr að vinnu eða einkalífi og spyrja sig gagnrýnna spurninga á borð við:

  • Átti ég von á skilaboðum frá viðkomandi einstaklingi eða fyrirtæki eftir þessari leið á þessum tímapunkti, t.d. þegar um er að ræða óvæntan tölvupóst, SMS eða Messenger skilaboð? Best er að forðast að opna alla hlekki í slíkum samskiptum.
  • Er viðkomandi að biðja um eitthvað óvenjulegt á borð við að leggja inn á nýjan reikning eða biðja mig um að setja aftur inn kortaupplýsingar eða lykilorð? Allt slíkt kann að vera hættumerki.
  • Er netfang, símanúmer, netslóðin eða greiðsluupplýsingarnar örugglega eins og þær eiga að vera?
  • Er ég örugglega á réttri heimasíðu en ekki svikasíðu? Eru einhverjar vísbendingar á borð við óvenjulega stafsetningu eða slóðin ekki eins og hún á að vera t.d. .com þegar hún ætti að vera .is? Til að vera viss getur verið skynsamlegt að byrja á að fara á heimasíðu viðkomandi fyrirtækis eftir öðrum leiðum.
  • Ef um tilboð í netsölu er að ræða getur verið gott að spyrja sig, er tilboðið of gott til að vera satt? Þá er líklegt að svo sé.
  • Erum einhverjar færslur í korta- eða reikningsyfirlitinu sem ég kannast ekki við? Gott er að fara reglulega yfir yfirlit í heimabankanum til að vera viss um að þar leynist ekki óeðlilegar færslur.

Heilbrigð tortryggni getur margborgað sig

Segja má að aldrei sé of varlega farið. Vakni minnsti vafi geta háar fjárhæðir sparast með því að hringja í viðkomandi einstakling, fyrirtæki eða stofnun til að vera viss um að allt sé eins og það á að vera áður en teknar eru ákvörðun um greiðslu fjármuna, að slá inn kortaupplýsingar eða lykilorð.

Gruni þig að þú hafir orðið fyrir svikum er mikilvægt að bregðast strax við til að lágmarka tjón með því að hafa samband við banka eða kortafyrirtækið þitt, láta loka kortum og breyta lykilorðum eins og við á. Einstaklingar geta byrjað á að frysta eigin kort í heimabanka eða bankaappi. Auk þess er hægt að sjá yfirlit yfir allar aðgerðir tengdar rafrænum skilríkjum þínum á heimasíðu Auðkennis sem og að afturkalla rafræn skilríki sé ástæða til.

Heilsteypt og heiðarleg tortryggni auk gagnrýnnar hugsunar í þessum málum getur komið í veg fyrir svekkelsi og fjárhagslegt tap síðar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu.


Athugasemdir

Nýjast