14. ágúst, 2007 - 12:39
Fréttir
Tvö tilboð bárust í framkvæmdir við Háskólann á Akureyri og voru þau bæði vel yfir kostnaðaráætlun en tilboð voru opnuð í morgun. Um er að ræða 4. áfanga í uppbyggingu húsnæðis HA. Fjölnir ehf. bauð tæpar 743 milljónir króna í verkið eða um 140% af kostnaðaráætlun, sem hljóðar upp á 530 milljónir króna. Ístak hf. bauð um 758,7 milljónir króna eða um 143% af kostnaðaráætlun. Nýbyggingin er 2.300 fermetrar að stærð en í þessum áfanga verða fyrirlestrarsalir og hátíðarsalur auk smærri kennslurýma. Einnig er gert ráð fyrir frágangi á Háskólatorgi og bílastæðum í þessum áfanga. Samkvæmt útboði skal verkinu að fullu lokið eigi síðar en 1. júlí 2009.