Guðmundur Hólmar Helgason átti fínan leik í liði Akureyrar í kvöld og skoraði 5 mörk þegar Akureyri og Haukar gerðu jafntefli í Höllinni í kvöld, 29:29, í N1-deild karla í handbolta. Þetta er annað jafntefli Akureyrar í röð sem þarf að bíða eftir deildarmeistaratitlinum um sinn. „Þetta var hörkuleikur og alveg stál í stál og hefði alveg getað dottið beggja veginn. Þannig að jafntefli er held ég bara sanngjörn niðurstaða," sagði Guðmundur eftir leik.
Varnarleikurinn hefur verið eitt aðalsmerki Akureyrar í vetur og hefur liðið helst verið gagnrýnt fyrir slakan sóknarleik. Það var hins vegar ekki upp á teningnum í kvöld þar sem dæmið snerist algjörlega við.
„Það voru ekki góðar varnir sem liðin buðu upp á kvöld og okkar varnarleikur var góður á köflum. Bubbi (Sveinbjörn Pétursson) varði nokkur fín skot en heilt yfir var hann alls ekki góður. Við erum hins vegar búnir að spila mjög góðan sóknarbolta í síðustu tveimur leikjum og ef vörnin hefði verið betri í kvöld hefðum við unnið. Vörnin er hins vegar ekki alveg að ganga sem skyldi núna og við þurfum að finna lausnir við því,” sagði Guðmundur sem var þokkalega sáttur við stigið í kvöld.
„Maður hefði svo sem viljað taka bæði stigin en stig er alltaf stig. Sérstaklega þegar það er svona stutt eftir og við verðum bara að reyna að klára þetta sem fyrst. Haukar eru hins vegar með hörkulið og það er ekki hægta að kvarta yfir stigi á móti þeim.”
Birkir Ívar: Sáttur við stigið
Birkir Ívar Guðmundsson markvörður var hetja Hauka í leiknum en hann varði vítakast frá Bjarna Fritzsyni á lokamínútunni og einnig síðasta skot leiksins frá Heimi Erni Árnasyni.
„Ég held að þegar uppi er staðið hafi þetta verið nokkuð sanngjörn úrslit þó ég hefði viljað sjá okkur taka bæði stigin. Við áttum sannarlega mjög góða sjensa á að taka stigin tvö en á móti kemur að það gátu Akureyringarnir líka. Þetta var hörkuleikur og mjög skemmtilegt að spila hérna fyrir norðan, frábært fólk og frábær höll og ekki skemmir fyrir þegar maður tekur punkt með sér heim," sagði Birkir sem varði 11 skot í leiknum.
„Þetta var heldur betur kvöld sóknarleiksins og ég held líka að leikurinn hafi verið mjög skemmtilegur á að horfa. Það má hins vegar ekki taka það af liðunum og vörnin var að berjast en það fór vissulega meira fyrir sóknartilburðum,” sagði Birkir og var sáttur með stigið, sem getur vegið þungt fyrir Hauka í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni þegar upp er staðið.
„Akureyringar hafa verið frábærir í vetur og því gott að ná stigi gegn þeim á þeirra heimavelli og við förum héðan þokkalega sáttir."