Guðmundur Ármann og Kristinn G. opna sýningu í Reykjavík

Guðmundur Ármann Sigurjónsson og Kristinn G. Jóhannsson opna grafíksýninguna "Ristur" í sýningarsal " Íslenskrar grafíkur" í Hafnarhúsinu, Tryggvagötu 17, (hafnarmegin) í Reykjavík. Sýningin verður opnuð  laugardaginn 19. febrúar kl. 14.00 en verður síðan opin fimmtudaga til sunnudaga kl. 14.00- 18.00 og lýkur sunnudaginn 6. mars.  

Kristinn G. sýnir dúkristur og hefur um þær þessi orð: "Ég hefi lengi verið aðdáandi einlægs handbragðs á smíðuðum, ofnum og prjónuðum hversdagshlutum, fordildarlausrar listar. Þar leitaði ég fanga. Skar í dúk mynstur ,sótt þangað, þrykkti á pappír og velti fyrir mér á ýmsa vegu.  Ég var alls óvanur dúkskurði og ekki sérlega handlaginn heldur, en niðurstaðan þessi."

Kristinn G. Jóhannsson (1936). Stúdent frá MA 1956 og lauk kennaraprófi 1962. Starfaði við kennslu og skólastjórn á Patreksfirði, Ólafsfirði og Akureyri í tæpa fjóra áratugi en hefur velt af sér þeim reiðingi.  Nam myndlist á Akureyri, Reykjavík og í Edinburgh College of Art.  Hann efndi til fyrstu  sýningar sinnar á Akureyri 1954 en sýndi fyrst í  Reykjavík, í Bogasal Þjóðminjasafnsins,1962 og sama ár tók hann fyrsta sinni þátt í Haustsýningu FÍM í Listamannaskálanum. Hefur síðan sýnt oft og víða.

Guðmundur Ármann sýnir tréristur.  Viðfangsefnið er sótt í náttúruna, hina síbreytilegu birtu sem ljær landinu, himninum, vatninu, fjöllunum og gróðrinum form, sem við nemum í umhverfinu.  Skynjun sem grópast í vitundina verður að minni sem  er viðmið í sköpunarferlinu. Myndirnar eru óhlutlægar þar sem hefðbundið mótíf er horfið og eftir standa lárétt form sem fljóta frjáls á myndfletinum og skapa skynjun sem vísar til náttúruupplifunar.  Ferlinu lýkur svo ekki fyrr en sýningargestir hafa skynjað myndirnar og lagt sinn dóm á hvernig til hefur tekist.

Guðmundur Ármann lauk námi í prentmyndasmíði  1962. Hóf myndlistarnám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1962 og útskrifaðist úr málunardeild 1966. Nám við Valand Konsthögskolan í Gautaborg 1967 og lauk þar námi í grafíkdeild 1972. Kennararéttindanám við Háskólannn á Akureyri 2003 og stundar nú meistaranám  í kennslu listgreina. Starfar sem kennari myndlistarkjörsviðs listnámsbrautar Verkmenntaskálans á Akureyri. Er stundakennari við Háskólann á Akureyri. Guðmundur Ármann sýndi fyrst í Mokkakaffi 1962, blekteikningar og kolteikningar.  Einkasýningarnar eru á þriðja tug, síðast í Norðurlandahúsinu, Færeyjum og í Gallerí Turpentín. Hefur tekið þátt í fjölda samsýninga heima og erlendis, norrænum myndlistarverkefnum og alþjóðlegum grafíksýningum.

Nýjast