Kaflinn um byggðamál verður að teljast nokkuð ítarlegur og virðist taka skynsamlega á flestum mikilvægustu hagsmunamálum landsbyggðanna, segir Þóroddur Bjarnason formaður stjórnar Byggðastofnunar um stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins.
Ríkisstjórnin ætlar að halda áfram yfirstandandi vinnu við samþættingu opinberra áætlana og gerð sérstakra landshlutaáætlana í samvinnu við sveitarfélögin og því fagna ég sérstaklega. Með því skapast auknir möguleikar á grenndarstjórnsýslu og flutnings viðamikilla málaflokka frá ríki til sveitarfélaga. Reynslan hefur sýnt að það er mun árangursríkari leið til að tryggja grunnþjónustu um allt land en að fara reglulega suður með betlistaf í hendi.
Þóroddur segir að mikill samhljómur sé með stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um byggðamál og stefnu stjórnar Byggðastofnunar.
Við fyrsta yfirlestur hugnast mér stefna nýrrar ríkisstjórnar í byggðamálum vel og svo er bara að vona að staðið verði við gefin fyrirheit. Guð láti gott á vita, segir Þóroddur Bjarnason formaður stjórnar Byggðastofnunar.
Nánar er rætt við Þórodd í prentútgáfu Vikudags í dag