Grímseyingar hafa áhyggjur af ágangi aðkomumanna við fuglaveiðar

Hverfisráð Grímseyjar samþykkti á síðasta fundi sínum að senda fyrirspurn til Akureyrarkaupstaðar um ágang aðkomumanna varðandi fuglaveiði í Grímsey. Þar er m.a. spurt um hver sé réttur og staða Grímseyjar og Grímseyinga. "Við viljum vekja athygli á þessu máli þar sem æ háværari raddir heyrast um fyrirhugaðar hópferðir aðkomumanna til eyjarinnar í fuglaveiði," segir í bókun hverfisráðs.  

Sigurður Ingi Bjarnason formaður hverfisráðs sagði í samtali við Vikudag að Grímseyingar hefðu áhyggjur af þessu. "Okkur í hverfisráðinu fannst ástæða til að spyrjast fyrir um þetta, þar sem við höfum heyrt af því að menn vilji flykkjast hingað til að veiða fugl. Hér fjölgar fugli á sama tíma og honum fækkar víða annars staðar. Menn hafa verið að koma hingað bæði til skjóta og háfa fugl og okkar fyrirspurn snýst um það hvort við hér getum eitthvað stjórnað þessu. Okkur finnst sjálfsagt að geta sagt við þá sem hingað koma að hver og einn geti veitt t.d. 20 fugla en ekki að menn komi hingað til veiða fugl í hundraða eða jafnvel þúsunda vís. Við höfum verið að heyra það að fólk sem hingað hefur komið hafi verið að auglýsa það að það sé ekkert mál að fara út í Grímsey, þar sé nóg af fugli."

Sigurður segir að menn séu að skjóta fugl á vorin og háfa lunda á sumrin. Hann segir að ekki hafi borist svar við fyrirspurn ráðsins. "Ég vil ekki að menn fari að leggjast í það að koma hingað til Grímseyjar af því hér sé allt frjálst. Hér eru líka jarðir sem ríkið á, það er enginn sem hefur með þær að gera og menn vaða hér yfir eins og þeir eigi þetta allt saman. Það verður að vera einhver stjórn á þessu, því annars fer þetta í tóma vitleysu."

Sigurður sem er fæddur og uppalinn í Grímsey, hefur stundað bjargsig frá því hann var 14 ára gamall, eða í um 40 ár. "Maður sér stóran mun á því hvað svartfugl sérstaklega hefur aukist alveg gífurlega, einnig lundi og krían er í þvílíkum blóma hér, þótt hún sé á undanhaldi víða líkt og lundinn. Þegar ég var krakki var enginn lundi hér vestan á eyjunni en hann er nú kominn nánast hringinn, það er rétt hérna við höfnina sem hann verpir ekki. Lundinn verpir rétt sunnan við félagsheimilið og svo alveg hringinn. Maður sér það í líka við sig í björgunum hvað plássið sem hver lundi hefur verður alltaf minna og minna, vegna aukningar. En þeir sjá það ekki fuglafræðingarnir, þeir hafa engann áhuga á því að hér sé að aukast fugl. Þeir vilja bara tala um fækkun fugla," segir Sigurður.

Hverfisráð Grímseyjar bendir jafnframt á í fyrirspurn sinni að nóg sé af fugli í eyjunni enn sem komið er en að sjálfsögðu sé alltaf hætta á ofveiði þar eins og annarsstaðar. "Það er ekkert að því að menn komi hingað og veiði sér í matinn en það er heldur ekkert að því að selja veiðileyfi, líkt og gert er með rjúpuna," segir Sigurður.

Nýjast