Ljóst er að áhrif ákvörðunar Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra um niðurskurð á aflaheimildum í þorski fyrir næsta fiskveiðiár niður í 130 þúsund tonn mun hafa gríðarleg áhrif á Eyjafjarðarsvæðinu.
Konráð Alfreðsson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, sagðist í samtali við RÚV fyrr í dag fagna hugrekki ráðherra að fylgja ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, en hins vegar væru þetta fyrirkvíðanleg tíðindi fyrir sjómenn þar sem um helmingur af félagsmönnum Sjómannafélags Eyjafjarðar hefði lifibrauð sitt af því að veiða þorsk.
Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa verið kynntar og í þeim segir að gripið verði til ýmiss konar aðgerða. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir:
„Í fyrsta lagi eru aðgerðir sem horfa einkum til þess að draga úr fyrstu áhrifum þeirrar tekjuskerðingar sem verður í kjölfar minnkunar þorskkvótans, jafnt hjá einstökum sveitarfélögum, fyrirtækjum og einstaklingum.
Í öðru lagi eru aðgerðir sem horfa til lengri tíma og miða að því að byggja samfélögin við sjávarsíðuna upp og stuðla að fjölbreyttara og öflugra atvinnulífi. Hér má nefna úrbætur í samgöngumálum, jafnt vega- sem fjarskiptamálum. Ennfremur aðgerðir sem miða að eflingu mennta- og menningarmála, meðal annars með aukinni áherslu á endurmenntun og starfsþjálfun. Einnig má nefna aðgerðir sem miða að því að efla nýsköpun. Loks verður lögð aukin áhersla á flutning opinberra starfa til landsbyggðarinnar."
Sjá einnig hér