Götuhornið - Sveitastrákur á mölinni

Það getur verið erfitt að inngildast skrifar sveitapiltur á götuhorninu
Það getur verið erfitt að inngildast skrifar sveitapiltur á götuhorninu

Það eru takmörk fyrir því hvað maður getur skipt bújörðum í marga hluta og engin leið er fyrir alla sveitastráka að ætla sér að verða bændur.  Pabbi varð því að ákveða hvor okkar bræðranna tæki við búinu af honum. Það er reyndar svo lítið að það er rétt á mörkunum að það dugi til að framfleyta fjölskyldu.  Pabbi ákvað að yngri bróðir minn tæki við jörðinni, byggingum og búsmala.  Hann væri bæði dælli í skapi en ég en við það bættist að ég væri svo rolulegur og riðvaxinn að það væri ekki líklegt að ég gæti framfleytt mér af vinnu.  Það væri því heppilegast að ég reyndi að fá starf á skrifstofu hjá hinu opinbera þar sem ég þyrfti ekki að óttast erfiði eða annríki. Ég er ekki viss um hvort ég á að vera móðgaður eða ánægður með þetta.

En ég flutti semsagt til Akureyrar fyrir þremur misserum.  Ég var var um mig og óöruggur. Ég óttaðist að fíkniefnadjöfullinn, sem ég hafði mikið heyrt um í útvarpinu, mundi reyna að læsa klónni í mig og sömuleiðis átti ég von á léttlyndisdrósum á hverju götuhorni leggjandi snörur sínar fyrir mig. Hvorugt gerðist.  Enn veit ég ekki hvort ég á að gleðjast eða hryggjast.

Ég hef lagt mig allan fram við að aðlagast samfélaginu hér á Akureyri. Sumt er auðvelt. Til að mynda er mér hatur í garð háhýsa í blóð borið og fellur það vel að viðhorfum Akureyringa. Ég skil líka ástríðu þeirra fyrir bílastæðum og að þeir geti ekki farið á milli staða nema hafa einkabíl utan um sig. Þannig er þetta í sveitinni líka. Ég skil hins vegar ekki af hverju þeir vilja ekki láta Akureyrarkirkju sjást frá Glerárgötunni en það breytir engu fyrir mig.  Ég fer í messu í sveitinni annað hvert ár og Guð verður að búa við það.

Aðlögunin hefur hins vegar ekki gengið þrautalaust. Erfiðast er að læra nýtt tungumál. Mér kom óþægilega á óvart að á Akureyri er talað annað tungumál en í sveitinni og ekki nóg með það heldur tekur þetta tungumál breytingum dag frá degi. Þær eru annaðhvort heimasmíðaðar eða aðkomnar.  Ég las um daginn frétt á ruv.is um nýjan erfðastofn búfés. Ekki kannast ég við það fés.  Þágufallssýki er hér málfræðiregla. Þérun var aflögð hjá öllum stofnunum þegar þangað komu yfirmenn sem ekki kunnu hana.  Í vikunni kynnti svo Akureyrarbær undiritun kröfulýsingar. Ég spurði frænda minn hvað þetta þýddi en hann er lögfræðingur.  Hann sagði að þetta orð væri notað yfir þá athöfn að lýsa kröfu í þrotabú sem væri í slitameðferð svo dæmi séu tekin. Slíkt væri þó alla jafna ekki fréttnæmt. Þegar við fórum að kanna þetta betur reynist fréttin vera um að þjónustukröfur um þjónustu við fatlaða hefði verið skrifaðar niður og svo hafði einhverjum verkefnalausum opinberum starfsmanni greinilega dottið í hug að rétt væri að endurskapa íslenskuna með því að nota um það orð sem þýðir eitthvað allt annað. Á sjúkrahúsinu stytta menn sér greinilega stundir við orðasmíð því á dögunum var auglýst þar starf heilbrigðisgagnafræðings.  Svo framandi var þetta orð að aftan við starfsheitið stóð orðið "læknaritari" inni í sviga svo hægt væri að skilja auglýsinguna.

Ég hef gaman af íþróttum og æfði fótbolta í sveitinni.  Ég spilaði lítið en enn þann dag í dag eru gamlir varamannabekkir á Eyjafjarðarsvæðinu volgir eftir þrásetur mínar. En ég skil ekki tungumálið sem íþróttafréttamenn nota.  Nú tala þeir um að menn grýti boltanum þó að allir viti að orðið er aðeins notað um að kasta grjóti. Þeir segja líka að einhver hafi komið í veg fyrir að það yrði ekki skorað mark þegar að einhver kemur í veg fyrir að andstæðingurinn nái að skora.  Undarlegasta tilhneigingin er þó þegar menn hættu að tala um að menn spili góða sókn eða vörn eða góðan sóknarleik eða varnarleik.  Nú segja menn að menn spili vel sóknarlega eða varnarlega. Og um daginn heyrði ég íþróttamanna segja að einhverjum handboltamanni hefði verið skipt inn varnarlega en tekinn útaf sóknarlega.

Svo langt er þessi vitleysa gengin að meira að segja Dóri vinur minn sem selur kjóla, buxur og belti er að hugsa um að hætta að nota orðið belti. Hann ætlar þess í stað að fara að dæmi Króata og kalla það utanummittisbuxnaupphengjuband.  Það er verst að það orð tekur meira pláss og það gæti orðið dýrara að auglýsa búðina í Dagskránni.

Vinnumarkaðs- og félagsmálaráðherra var í útvarpinu um daginn að tala um inngildingu innflytjenda. Fyrst hélt ég að hann væri að tala um einhverskonar vígsluathöfn - eins og maður hefur heyrt að frímúrarar séu með - með niðurdýfingum og brennimerkingum. Þegar leið á viðtalið varð mér ljóst að ráðherrann var í raun að tala um aðlögun innflytjenda en einhver verklaus ríkisstarfsmaður hafði ákveðið að búa til nýtt orð um þetta.

Það er erfitt að læra nýtt tungumál. En sérstaklega er þetta erfitt þegar tungumálið tekur daglegum breytingum meðan maður er að reyna að læra það. Kannski er þetta einmitt gert til þess að þeir sem eru að læra tungumálið geti ekki skilið það í raun og sé minntir á það sem oftast að þeir eru hér gestkomandi. Hvað sem því líður er átján mánaða tilraun mín til aðlögunar á Akureyri farin forgörðum. Ég neyðist nú til að byrja allt upp á nýtt og reyna að inngildast.


Athugasemdir

Nýjast