Götuhornið - Aðkomumaður skrifar!

Það er aðkomumaður sem  hefur orðið á götuhorninu i dag!
Það er aðkomumaður sem hefur orðið á götuhorninu i dag!

Það kom ekki til af góðu að ég flutti til Akureyrar.  Konan varð ólétt og hvorugt okkar vildi hætta að vinna utan heimilis.  Við ákváðum að barnið færi á leikskóla. Við urðum þess vegna að flytja frá Reykjavík. Þar er meira að segja tveggja ára biðlisti eftir að komast á biðlista eftir leikskólaplássi. Við ákváðum að taka skrefið til fulls, ekki bara flytja til Akureyrar heldur ganga enn lengra og flytja út fyrir mörk hins byggilega heims.  Við keyptum okkur þess vegna hús í Glerárhverfi. 

Það er margt sem kemur á óvart á Akureyri og ekki bara það að hér er ekki lengur töluð danska á sunnudögum.  Rígurinn milli KA og Þórs setur skemmtilegan brag á bæinn. Við leigðum íbúð á Brekkunni í nokkrar vikur áður en við fluttum út fyrir Glerá. Þá elskaði ég KA og hataði Þór. Á flutningsdaginn urðu síðan pólskipti á þessu og ég henti öllum bláu og gulu sængurverunum og keypti rauð og hvít.  Lifi Þór!!!    

Akureyringar elska kirkjuna og bæjarmyndina.  Samt byggðu þeir háhýsi til að tryggja að kirkjan falli í skuggann og íbúar í gömlu Hafnarstætishúsunum sjái aldrei til sólar.  Reyndar sér enginn til sólar í miðbænum lengur nema á litlum reit norðan við pylsuvagninn í Hafnarstrætinu seinni hluta dags ef maður tyllir sér á tá við norðvesturhorn vagnsins og reigir hausinn lítið eitt til suðvesturs. 

Á Akureyri notar enginn maður stefnuljós. Venni í Austurhlíð hefur haft samband við nýja framkvæmdastýru Drifts EA um að stofna nýsköpunarfyrirtæki um útflutning á ónotuðum stefnuljósarofum úr akureyrskum bílhræjum.  Akureyringar kunna heldur ekki að nota hringtorg.  Þeir halda að þeir eigi ekki bara að víkja fyrir þeim sem eru á hringtorginu,  heldur líka öllum sem eru að koma að því og ætla inn á það. Þetta er drepfyndið. Þegar þeir mætast í umferðinni veifa þeir hver öðrum eða stoppa fyrirvaralaust og ræða saman.  Fyndnast er þó hvernig þeir nota umferðarljós þar sem þeir bíða auðmjúkir eftir græna ljósinu sínu. Þegar það kviknar bíða þeir enn um sinn en fara svo af stað nokkrum sekúndum áður en gult ljós kviknar á ný.  Þannig gæta þeir þess að enginn annar noti græna ljósið þeirra. Það tekur smá tíma að venjast þessu. 

Akureyringar hata háhýsi og ef einhverjum dettur í hug að byggja hús sem er hærra en 6 hæðir verður hér allt vitlaust. Að sama skapi elska þeir lítil og ónýt einnar hæða hús. Gamla BSO húsið situr sem fastast eins og graftarbóla á andliti unglingspilts hálft úti á fjölförnustu gatnamótum bæjarins eins og síðasta vígi sólargeislans í þröngum, gráum og sólarlausum miðbæ.

Á Akureyri kostar ekkert að fara með strætisvögnum. Leiðakerfið er reyndar þannig að það er ekkert hægt að nota strætó og foreldrar aka börnum sínum milli skóla og íþróttahúsa fram og til baka allan liðlangan daginn meðan strætisvagnarnir dóla mannlausir um bæinn eftir óskiljanlegu kerfi sem enginn skilur en allir vita þó að má hvorki fara á flugvöllinn né á tjaldstæðið á Hömrum.  

Akureyringar nota bílana sína eins og úlpur.  Þeir klæða sig í einkabílinn inni í bílskúr eða bílageymslu, keyra hann upp að dyrum verslunarinnar sem þeir ætla í og klæða sig þar úr honum meðan þeir fara inn að versla, of með vélina í gangi svo úlpan verði hlý og notaleg þegar þeir klæða sig í hana aftur. Ef þeir drepa á vélinni er lykillinn skilinn eftir í svissinum. Það hefur heldur engan tilgang að fara með hann inn  því að húsin eru öll ólæst.

En Akureyringar kunna svo sannarlega að læra af þeim sem meira kunna.  Reykvíkingar hafa þrengt að flugvellinum í Vatnsmýrinni og nú ætla Akureyringar líka að þrengja það samgöngumannvirki í almannaeigu sem er í miðjum þeirra bæ og gera Glerárgötuna að götu með eina akrein í hvora átt. 

Ég er farinn að venjast því að búa hérna og farinn að kunna vel við mig.  Frænka mín úr Bárðardalnum þarf ekki lengur að túlka norðlenskuna fyrir mig og ég er hættur að standa í tveggja metra fjarlægð frá fólki til að fá ekki yfir mig frussið sem fylgir harðmælskunni. Það er bara notalegt í hitamollunni sem er hér alla daga. Ég er reyndar fullur aðdáunar yfir því að Akureyringar virðast hafa náð valdi á því að fjarlægja rusl frá heimilum fólks í stað þess að láta það safnast þar upp eins og í borg Da... já, Dags.  Sömuleiðis hafa þeir áttað sig á því að það þarf meiri við búnað til að moka meiri snjó á veturna en á sumrin og að eftir snjókomu þarf að moka meira en þegar ekki hefur snjóað. Hver hefði trúað því?  Það mætti senda Finn Aðalbjörns suður til að kenna flatlendingunum undirstöðuatriðin í þessu.  Reyndar horfir nú allt til betri vegar í Reykjavík því að þar hefur Framsóknarmaður tekið við yfirveðsettum veldissprotanum þar á bæ. En ég fer ekki heim aftur í bráð. Ég elska að skammast yfir Bíladögum, túristum, Reykvíkingum og utanbæjarmönnum.

 


Athugasemdir

Nýjast