Í uppfærslunni er talsvert um tónlist, Emilía Baldursdóttir gerði íslenska söngtexta og Hermann Ingi Arason samdi tónlist og stýrir henni í verkinu. Leikgerðin er mjög skemmtileg og oft eru margir leikarar á sviði í einu. Þeir skapa ýmsa hluti og umhverfi á sviðinu sem gerir sýninguna mjög lifandi. Alls taka 22 leikarar þátt í sýningunni og fara með þau 70-80 hlutverk sem eru í leikritinu. Það er því oft mikið um að vera á sviðinu. Jafnframt er mikið líf og fjör í kringum aðrar „deildir" Freyvangsleikhússins en alls koma um 50 manns að verkinu. Saumastofan hefur t.d. verið ansi lífleg á tímabilinu þar sem margir búningar hafa verið gerðir. Leikmunir eru líka mjög fyrirferðamiklir í þessari sýningu og t.d. kemur fyrir fuglabúr sem rúmar manneskju. Þórarinn Blöndal sér um hönnun leikmyndar en leikstjóri er Þór Tulinius.
Það eru margir aðdáendur Svejk sem bíða spenntir eftir því að sjá hann á fjölum Freyvangs. Það hefur sýnt sig í viðtökum á gjafabréfum sem Freyvangsleikhúsið hefur verið með í sölu frá því í desember sl. og er nú þegar uppselt á nokkrar sýningar. Það eru sannarlega frábærar viðtökur fyrir áhugaleikhús, enda hefur Freyvangsleikhúsið verið eitt fremsta og kraftmesta áhugaleikfélag landsins. Góði dátinn Svejk verður því enn ein rósin í hnappagatið félagsins, sem mun skemmta Eyfirðingum og landsmönnum öllum fram eftir vori.