Í fámennu og dreifðbýlu landi eins og Íslandi getur oft reynst erfitt að manna stöður sérfræðinga í heilbrigðisþjónustu og á það ekki síst við á landsbyggðinni. Þá hefur stefnan verið sú að byggja upp aðstöðu og þekkingu á höfuðborgarsvæðinu þar sem jú flestir búa. Þetta hefur m.a. valdið því að aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni er mjög skert. Fjarheilbrigðisþjónusta er því mikilvægt landsbyggðamál þar sem hún eykur aðgengi að þjónustunni og dregur úr kostnaði vegna ferðalaga.
Nú í vor samþykkti Alþingi þingsályktun Bjartrar framtíðar um fjarheilbrigðisþjónustu. Þetta þýðir að heilbrigðisráðherra skal leggja fram aðgerðaráætlun sem snýst um að efla fjarheilbrigðisþjónustu þannig að landsmönnum öllum bjóðist fjölbreytt, skilvirk og örugg heilbrigðisþjónusta. En hvernig er þessi þjónusta skilgreind? Fjarheilbrigðisþjónusta (e. telehealth) er ýmis þjónusta sem veitt er með fjarskiptum og rafrænum hætti. Dæmi um einfalda útgáfu væri ráðgjöf heilbrigðisstarfsmanna í gegnum síma og dæmi um flókna fjarheilbrigðisþjónustu er skurðaðgerð með hjálp vélmenna sem stýrt er af sérfræðingum sem staddir eru hver í sínum heimshlutanum. Tæknina má einnig nota í heimahjúkrun þar sem einstaklingi er veitt aðstoð varðandi lyf, aðstoð við sárameðferð eða aðra meðferð eftir aðgerðir á sjúkrahúsi.
Fjarskiptatækni hefur fram til þessa að einhverju leyti verið nýtt í geðlækningum hér á landi en það frumkvæði hefur að mestu verið einstakra sérfræðinga. Hins vegar er ljóst að hægt er að nýta tæknina mun betur til þess að mæta þörfum fólks til sálar- og geðlækninga. Það er því full ástæða til að ætla að hér á landi geti fjarheilbrigðisþjónusta verið mjög ákjósanlegur kostur til að efla þjónustuna sem fyrir er, bæði á vettvangi heilsugæslu og sjúkrahúsa og veita fólki fræðslu og sérhæfða ráðgjöf og leiðsögn óháð búsetu. Nú þegar hefur fjarheilbrigðisþjónusta verið stunduð með góðum árangri á Kirkjubæjarklaustri.
Það sem einna helst gæti staðið í vegi fyrir öflugri fjarheilbrigðisþjónustu er skortur á góðum fjarskiptum víða á landsbyggðinni en unnið er að því að bæta þar úr og er samstaða um það mál þvert á flokka enda flestum ljóst að góð nettenging og fjarskipti eru forsenda þess að byggð þrífist um allt land.
Við fögnum því að hafa náð þessu mikilvæga máli í gegn á Alþingi og treystum því að heilbrigðisráðherra fylgi því fast eftir.
-Björt Ólafsdóttir og Brynhildur Pétursdóttir þingkonur í Bjartri framtíð