Við náum vonandi að gera um 100 kíló af rabarbarasultu, enda er nóg af rabarbaranum hérna rétt fyrir neðan sjúkrahúsið og um að gera að nýta hann. Þetta er með öðrum orðum örugglega matur úr héraði, segir Anna Rósa Magnúsdóttir forstöðumaður eldhúss Sjúkrahússins á Akureyri.
Þrjár konur sem vinna í eldhúsinu rifu upp rabarbarann í vikunni og í kjölfarið var hafist handa við sultugerðina. Anna Rósa segir að rabarbarasulta hafi líklega ekki verið búin til á sjúkrahúsinu í um tvo áratugi.
Í fyrra keypti sjúkrahúsið 220 kíló af tilbúinni sultu, þannig að þetta verður góð búbót. Síðan búum við líka til gamaldags rabarbaragraut og kannski smávegis af saft.
Hollustan í fyrirrúmi
Já, já, við gætum þess að sultan verði holl og góð. Í henni er að vísu talsverður sykur, en við reynum að halda honum í lágmarki, segir Anna Rósa.
karleskil@vikduagur.is