Goblin opnar á Glerártorgi

Ásta Hrönn og Þorsteinn Marínósson
Ásta Hrönn og Þorsteinn Marínósson

„Eins leitt og okkur þykir að yfirgefa fallega miðbæinn okkar, erum við afar spennt fyrir þessum flutningum og hlökkum til að bjóða viðskiptavini okkar velkomna á Glerártorgi,“ segja þau Þorsteinn Marinósson og Ásta Hrönn  sem eiga Goblin. Starfsemin hefur verið við Brekkugötu undanfarin ár en flyst nú í rýmra húsnæði á Glerártorgi.

Þau segja að með flutningum skapist tækifæri til að vaxa og þróast áfram, spilasvæði verður notalegra en var og þá verði hægt að auka úrval bæði af vörum og þjónustu. Fjölmargir spilaviðburðir eru á döfinni, spilakeppnir og námskeið fyrir börn og fullorðna. Hægt verður að kaupa sér aðgang að borðspilasafni Goblin, panta einkaviðburði og hópefli vinnustaða sem og að taka þátt í ýmsum styttri viðburðum. Í Goblin fer einnig fram valgreinakennsla fyrir grunnskóla Akureyrar þar sem spilað er Dungeons & Dragons sem hefur hefur uppbyggjandi áhrif á sköpunarkraft, samskipti og félagsfærni.

Þau námskeið sem og líka Pokémon hafa verið mjög vinsæl meðal barna en þau eru einnig í boði fyrir fullorðna. Þá eru námskeið í boði í málum og spilun á Warhammer.

Verslunin opnar í dag, fimmtudag kl. 15 og stendur opnunarhátíð yfir fram á kvöld með sérstökum tilboðum og afþreyingu fyrir alla fjölskylduna. Tímamótunum verður fagnað með 15% afslætti á flestum vörum, lukkuhjóli og fleiru.

Opið er í Goblin frá kl. 12 til 22 alla virka daga og frá 12 til 17 um helgar. Vikulegir spilahittingar eru frá kl. 18 til 22 öll kvöld, en eftir lokun Glerártorgs er gengið inn frá norðurhlið hússins.

 


Athugasemdir

Nýjast