Glæsilegur sigur Akureyrar gegn Mosfellsbæ í Útsvari í kvöld

Lið Akureyrar vann glæsilegan sigur á liði Mosfellsbæjar í Útsvari, spurningakeppni Sjónvarpsins, í kvöld. Akureyringarnir fengu 91 stig gegn 75 stigum Mosfellinga. Lið Akureyarar varð því annað liðið til tryggja sér sæti í undanúrslitum en um síðustu helgi var það lið Reykjanesbæjar sem tryggði sér sæti í undanúrslitum.  

Liðsmenn Akureyrar, þau Hilda Jana Gílasdóttir, Birgir Guðmundsson og Hjálmar Brynjólfsson, fóru rólega af stað í kvöld og lentu 0-6 undir í bjölluspurningunum en þau sóttu í sig veðrið og að loknum bjölluspurningunum var staðan 10-9 Mosfellingum í vil. Í vísbendingaspurningunum náði lið Akureyrar forystu 13-10 og leit aldrei um öxl eftir það. Eftir látbragðsleikinn var munurinn orðinn 9 stig, 40-31, eftir flokkana var staðan 61-45 Akureyringum í vil og í lokspurningnum svöruðu liðin tveimur 15 stiga spurningum hvort og lokastaðan sem fyrr segir 91-75.

Hilda Jana sagði í leikslok að þessi sigur gæfi vonandi tóninn fyrir morgundaginn, þegar lið Akureyrar mætir Val í úrslitum Eimskipsbikarkeppninnar í handbolta í Laugardalshöllinni kl. 16.00. Undir það tóku Birgir og Hjálmar.

Nýjast