Getur bók sameinað tvær þjóðir?

Dr. Giorgio Baruchello, prófessor við Félagsvísindadeild
Dr. Giorgio Baruchello, prófessor við Félagsvísindadeild

Dr. Giorgio Baruchello, prófessor við Félagsvísindadeild hefur rannsakað í mörg ár hvernig húmor hefur áhrif á líf okkar og hvaða hlutverki hann gegnir.

Núna á miðvikudaginn býður hann Akureyringum og nærsveitafólki að koma á viðburð þar sem samankomin verður alþjóðlegur hópur fræða- og listafólks ásamt grínista.

Húmorinn er víða

Giorgio hefur gefið út fjölda bóka, tekið þátt í ráðstefnum og er hann einnig virkur þátttakandi í fræðasamfélaginu, bæði hér innanlands svo og utan. Þessi störf leiddu hann alla leið til Sikileyjar í ágúst. Þar var Giorgio ásamt Rachael Lorna Johnstone, prófessor við Lagadeild og Magnúsi Smára Smárasyni, verkefnastjóra gervigreindar og var tilgangurinn að sækja ráðstefnu sem bar yfirskriftina „Kort framtíðarinnar“. Þar fjölluðu þau um meðal annars um húmor og gervigreind ásamt því að taka þátt í umræðum.

Giorgio, Magnús Smári og Rachael í grísku kirkjunni Palazzo Adriano. Rachael flytur sitt erindi á ráðstefnunni.

„Það er mikilvægt að við hjá háskólanum tökum virkan þátt í fræðasamfélagi erlendis og eru svona ráðstefnur mikilvægur þáttur í því. Þátttaka okkar í þeim viðburði varð til þess að rætt var við mig um mín störf við háskólann og ráðstefnuna á aðal sjónvarpsstöð mín heimahéraðs á Ítalíu, Lígúría, og þar eru íbúar um 1,5 milljón talsins.” Segir Giorgio aðspurður um mikilvægi þátttöku sem þessarar.

Hlakkar til að hitta fólk á Amtsbókasafninu

Tilefni viðburðarins er útgáfa nýrrar bókaraðar Giorgios og verður boðið upp á erindi, uppistand og umræðu í afslöppuðu andrúmslofti. Hann segir bókaröðina sameina Ísland og Kanada og hluti þátttakenda komi alla leið frá Kanada.

„Þá verður gaman og gagnlegt að bjóða samfélaginu hér á opna viðburðinn sem í þetta skiptið er haldinn í samstarfi við Amtsbóksafnið. Það verður vonandi gott veður eins og er náttúrulega alltaf á Akureyri og þá er upplagt fyrir fólk að rölta niður í bæ, heimsækja okkur, fá sér kaffi og taka þátt í spjallinu.“ Segir Giorgio sem mun meðal annars velta því upp af hverju fólk hlær að röngum hlutum brandara hans.

Viðburðurinn byrjar klukkan 16:00, miðvikudaginn 19. nóvember næstkomandi og er í Amtsbókasafninu. Frekari upplýsingar um viðburðinn má finna hér.

Öll velkomin!

Nýjast