Tekjur sveitarfélagsins er áætlaðar um 388 milljónir króna og útgjöld um 389 milljónir þannig að niðurstaðan á rekstri samstæðunnar er tæp milljón í mínus. Ekki er fyrirhugað að taka ný lán á næsta ári, en afborganir þeirra lána sem fyrir eru nema um 9,9 milljónum króna. „Það er alveg ljóst að reksturinn verður erfiður og menn eru bara í því að klára beinin. Slíkt er óhjákvæmilegt þegar tekjur dragast saman, en á móti kemur að staða sveitarfélagsins er sterk og við höfum úr svolitlu lausu fé að spila. Það gerir okkur kleift að fara í þó nokkrar framkvæmdir á komandi ári sem er ánægjulegt," segir Guðný.
Fyrirhugað er að framkvæma fyrir 32,6 milljónir króna á næsta ár, m.a. verður farið í gatnagerð, lagfæringar á sundlaug og tjaldstæði. „Við ætlum að klára að malbika þær götur sem hér eru og þegar er búið að undirbyggja fyrir malbik. Sundlaugin er 20 ára gömul og kominn tími á eðlilegt viðhald hennar og loks ætlum við að gera endurbætur á tjaldstæðinu, m.a. byggja nýtt þjónustuhús og koma upp rafmagni og ýmislegt fleira," segir Guðný.
Alls voru 333 íbúar skráðir í Grýtubakkahreppi samkvæmt nýjum tölum Hagstofonnar og hafði fækkað um 3 frá því á sama tíma í fyrra. „Þeirri þróun þurfum við með öllum ráðum að snúa við," segir Guðný og bendir á að atvinnuástand sé gott í hreppnum og þjónusta við íbúana prýðileg.